150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

uppsagnir á Reykjalundi.

[15:36]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Reykjalundur er stærsta endurhæfingarmiðstöð landsins þar sem árlega koma um 1.200 einstaklingar til endurhæfingar hvaðanæva af landinu, endurhæfingar sem getur verið af margvíslegum ástæðum, svo sem eftir erfið og langvinn veikindi, alvarleg slys, vegna ofþyngdar eða annarra kvilla. Þörfin er enn meiri enda eru beiðnir um þjónustu í kringum 2.000 á ári hverju. Þetta er meira og minna allt fólk sem telst vinnufært sem þarf að komast í endurhæfingu og síðan aftur út á vinnumarkaðinn. Þannig er með góðri endurhæfingu hægt að koma í veg fyrir eða seinka ótímabærri örorku með þeim kostnaðarauka sem henni fylgir fyrir hið opinbera.

Á Reykjalundi starfa á annað hundrað manns í þverfaglegum teymum; læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkra- og iðjuþjálfar, félagsráðgjafar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, heilsuþjálfarar, næringarráðgjafar og fleiri sérhæfðar heilbrigðisstéttir. Stofnunin var valin stofnun ársins 2017 og er í öðru sæti yfir stofnun ársins 2018 og 2019. Því miður benda fréttir síðustu daga til þess að ánægja starfsmanna hafi farið minnkandi í kjölfar uppsagnar forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga.

Í heimsókn minni og hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar á Reykjalund á föstudaginn sl. upplifðum við beint í æð þá miklu óánægju og hræðslu sem nú er allsráðandi meðal starfsmanna Reykjalundar. Starfsmennirnir skoruðu á ráðherra fyrir helgi að grípa inn í stjórn stofnunarinnar og lýstu þeir vantrausti á stjórn SÍBS. Þetta er alvarleg staða sem uppi er og mikilvægt fyrir okkur öll að það góða starf sem rekið hefur verið á Reykjalundi á síðustu árum og síðustu áratugum haldi áfram.

Því beini ég fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hver er afstaða ráðherra til þeirrar stöðu sem upp er komin? Hyggst ráðherra bregðast við áskorun starfsmanna? Hefur ráðherra átt í samskiptum við stjórn SÍBS og starfsmenn Reykjalundar?