150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma hingað núna og eiga við mig orðastað um málefni sem er mér afskaplega hugleikið, virkilega viðkvæmt málefni sem hefur átt undir högg að sækja í samfélaginu, veikindi sem hafa mátt sæta ótrúlegum fordómum. Þess vegna stend ég hér. Mig langar að tala um að síðustu þrjú árin hefur vímuefnaneysla í æð vaxið mjög. Það hefur fjölgað í hópi nýrra sprautuneytenda og fjölgað innlögnum alls hópsins, hóps sem er áberandi veikur. Neysla örvandi vímuefna vex og einnig neysla ópíóíða en það er svo sem ekkert nýtt, þetta er það sem við horfumst í augu við og sannarlega hefur ekki dregið úr alvarleikanum.

Stór hluti þess unga fólks sem kemur til meðferðar á Sjúkrahúsinu Vogi er algjörlega óvirkur í samfélaginu. Hann er ekki á atvinnumarkaði og sinnir heldur ekki uppeldi barna sinna. Líkamleg og andleg heilsa þeirra sem koma vegna langvarandi neyslu er mjög slæm, ekki hvað síst hjá ungum konum. SÁÁ, heilbrigðisyfirvöld og sveitarstjórnir þurfa að sýna samstöðu, við þurfum að taka höndum saman og ég trúi því af öllu hjarta að samtakamáttur okkar geti orðið til þess að við getum náð stórkostlegum árangri, miklu meiri árangri en við státum af í dag. Nú hafa biðlistarnir inn á Vog lengst, það hefur fjölgað um 100 einstaklinga á biðlista á rúmu ári. Nú eru þeir rétt um 700. Að hugsa sér að við skulum horfast í augu við það líka að yfir 6.000 einstaklingar á aldrinum 20–40 ára hafa læknisfræðilega verið greindir fárveikir af fíknisjúkdómi. Þetta eru ansi stórar tölur, virðulegi forseti.

Segja má að það gefi ranga mynd í samfélaginu að við notum orð um vandann eins og jaðarhópa eða jaðarsetta einstaklinga þegar hópurinn er orðinn eins stór og raun ber vitni. Eins og ég var að nefna hafa 6.000 einstaklingar á aldrinum 20–40 ára verið greindir. Þetta er langvarandi vandi og það er sannarlega ekki við heilbrigðisráðherra að sakast hvað það varðar. Hún er núna búin að vera í embætti sínu í tæp tvö ár. Ég er ekki að fara í þessa umræðu til að vera í einhverjum upphrópunarstíl og fara í pólitískar skotgrafir. Ég horfist í augu við þann alvarlega vanda sem er uppi úti í samfélaginu í dag og ég vil meina að við getum gert miklu betur. Ég trúi því. Hugsið ykkur t.d. ef við bara fjölguðum rúmum um tvö á Sjúkrahúsinu Vogi. Það tæki okkur ríflega eitt og hálft ár að klára niður biðlistana. Við getum gert þetta ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, eins og ég segi gjarnan. Við þurfum líka að horfast í augu við það sem bíður einstaklinganna sem komast loksins í meðferð. Það vantar meira og minna allan stuðning, það eru örfáir sem geta notið þess. Það vantar búsetuúrræði, það vantar að hjálpa þeim að komast í atvinnu og annað slíkt. Fólk kemur uppfullt af væntingum og bjartsýni um nýtt og betra líf eftir að hafa gengið í gegnum meðferð og leitað sér hjálpar. Þessir einstaklingar lenda oft og tíðum nr. 701, 702 og 703 í röðinni vegna þess að þeir falla skömmu síðar. Stuðningsnetið sem bíður þeirra er nánast ekki til.

Áður en ég beini beinni spurningu til ráðherrans sérstaklega langar mig að benda á alvarleikann sem við höfum horfst í augu við um dauðsföll af völdum fíknar. Frá árinu 2013 hafa dáið 98 karlmenn sem viðurkennt var að hefðu dáið vegna lyfjaeitrunar. Á sama tíma hafa 76 konur dáið af völdum lyfjaeitrunar. Við erum að tala um mannauð upp á 174 einstaklinga og nú erum við ekki að tala um þá sem tóku sitt eigið líf. Hvað eru margir af þeim rúmlega 50 einstaklingum sem svipta sig lífi árlega sem gerðu það undir áhrifum af einhverju sem við vildum gjarnan hafa hjálpað þeim til að losna við?

Mig langar að vita hvað hæstv. heilbrigðisráðherra er að gera í stöðunni, hvað hún hefur á teikniborðinu og hvað hún sér fyrir sér, hvernig við eigum að byggja upp t.d. forvarnirnar og allt sem við gætum svo gjarnan gert, ef við myndum virkilega efla þetta. Ég skal vera fyrsta manneskjan til að taka frívakt kauplaust til að hjálpa til og styðja við að hjálpa þessu fólki okkar. Þetta er mannauður sem við megum ekki við því að missa. (Forseti hringir.) Við erum að tala um þjóðfélagslegan harmleik þegar við horfum upp á þessi dauðsföll og ástandið.