150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:56]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Hún er þörf nú og verður það því miður áfram. Ég vil bara taka undir það sem hér hefur komið fram. Vandinn er gríðarlega stór og við hæstv. ráðherra höfum rætt áður að það þarf að setja mikinn kraft í þetta verkefni. Við höfum rætt að lyfjaskammtar í apótekum eru allt of stórir. Það held ég að hver einasti einstaklingur sjái í skápunum heima hjá sér þegar lítill hluti lyfja er notaður og höfum við tekið saman dæmi um það sem ég sýndi hæstv. ráðherra.

Varðandi biðlistana liggur auðvitað fyrir að eiturlyfjamarkaðurinn gengur út á eftirspurn sem vex mjög hratt. Framboð er langt umfram það sem flestir geta ímyndað sér. Það er alveg ótrúlegt framboð af eiturlyfjum. Þrátt fyrir góða frammistöðu tollvarða sem tóku í sumar tvær stórar sendingar, annars vegar í Keflavík og hins vegar í Norrænu, sem eru u.þ.b. 60.000–70.000 skammtar, segja fróðir menn mér að verð hafi ekkert lækkað á markaðnum. Það segir alla söguna um hversu markaðurinn er sterkur hér á Íslandi og langt umfram það sem maður hefði trúað. Ég nefndi áðan læknadóp og það er auðvitað notað sem greiðsla fyrir kynlíf og auk þess gýs upp svartamarkaðsstarfsemi í kringum það.

Nær öll meðferð á Íslandi er rekin af sjálfstæðum stofnunum. Þær fá ríkisstyrk en fá langtum meira fyrir hverja einustu krónu en ef starfsemin væri í höndum ríkisins. Þrátt fyrir það er mikilvægt að halda því hjarta sem er í þeim stofnunum og frumkvöðlastarfi sem þar er og það þarf meira fé í þær stofnanir. Það eru Vogur, Hlaðgerðarkot og Krýsuvík; við þurfum að styrkja þær langtum meira en við gerum í dag til þess að stytta biðlistana.