150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda kærlega fyrir þessa umræðu sem við ættum í raun að hafa vikulega á þingi, enda er staðan sú að hér á landi missum við fjölda fólks vegna ofneyslu eiturlyfja fyrir utan þá sem falla vegna sjálfsvíga, slysa eða annarra voðaatburða sem tengjast neyslu. Í kjördæmaviku fórum við þingmenn Samfylkingarinnar í lærdómsríka heimsókn til SÁÁ og fengum að líta inn fyrir á bæði meðferðarstöðinni Vík og á Vog. Á biðlista eftir meðferð eru ekki sex einstaklingar, ekki 60 einstaklingar heldur 692 sem oft og tíðum eiga fjölskyldur, börn, maka, mæður, feður, systkini. Þetta eru ekki bara einhverjar tölur, þetta eru nefnilega næstum því 700 Jónar og Gummar og Heiður og Önnur í öllum fjölskyldum. Þetta erum bara við hér allt í kring, alls konar fólk. Sumir eru mjög veikir. Aðrir eru að reyna að fá fyrstu hjálp en þurfa að bíða mánuðum saman. Helmingur þeirra sem leita á Vog er á aldrinum 18–35 ára. Það sem helst hefur breyst undanfarin ár er mikil fjölgun þeirra sem hafa sprautað sig en á síðasta ári komu tæplega 450 manns sem höfðu sprautað sig. Það þótti fyrir nokkrum árum eiginlega alveg fáheyrt. Árið 1995 komu tæplega 70% í meðferð vegna áfengisneyslu en í fyrra var hlutfall þeirra sem komu vegna áfengissýki aðeins 29%. Þetta er grundvallarbreyting. Restin kom vegna fíknar í fíkniefni hvers konar.

Hæstv. ráðherra. Ég held að við verðum að fara nú þegar í stórátak eða öllu heldur þjóðarátak í forvörnum. Við getum ekki bara látið þetta flæða yfir. Við þurfum að fara þá leið núna til að koma í veg fyrir að fólk ánetjist þessu, að koma í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir því eftir tíu ár (Forseti hringir.) eða 20 að hér verði allt fullt af fíklum.