150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:05]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það eru risavaxin mál á dagskrá sem tengjast vímuefnavánni; biðlistar í meðferð, ópíóíðar, amfetamín og kókaín og svo dauðsföll vegna meintrar lyfjaeitrunar. Mig langar til að beina sjónum mínum að forvörnum. Hver er aðgangur að forvarnafræðslu í skólastarfi? Hvert er samspil skólanna við landlækni? Landlæknir hefur það lögbundna hlutverk að annast forvarna- og heilsueflingarstarfsemi. Svokölluð ACE-rannsókn, upp á ensku Adverse Childhood Experiences Study, er stór rannsókn sem hefur verið í gangi frá árinu 1995. Hún hefur óyggjandi sýnt fram á tengsl erfiðra upplifana og áfalla í æsku og heilsufarsvanda, þar með talið fíknivanda, síðar á ævinni. Samkvæmt rannsókninni eru börn sem hafa orðið fyrir áföllum mun líklegri til að ánetjast fíkniefnum síðar á lífsleiðinni. Þetta er mikið áhyggjuefni en á sama tíma má spyrja hvort þetta sé ekki eitthvað sem við getum nýtt okkur, gripið inn í fyrr og betur en við gerum með því að slást um að koma þeim í meðferð eftir að þau hafa ánetjast fíkniefnum.

Við höfum oft rætt skimun af ýmsum toga í þingsal í umræðum um heilbrigðismál. Mig langar til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort innan ráðuneytis hennar sé verið, og þá í samstarfi við menntamálayfirvöld, að skoða það að skima börn með einhverjum hætti með tilliti til þessara áhættueinkenna. Þar væri sannarlega hægt að slá margar flugur í einu höggi, finna börn sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverjum toga og veita þeim faglega aðstoð við að vinna úr þeim áföllum, m.a. — ekki eingöngu heldur meðal annars — til að draga úr líkum á því að þau verði fórnarlömb fíkniefna síðar á ævinni, með öðrum orðum að leggja áherslu á að komast að rót vandans og vinna okkur þaðan.