150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í seinni ræðu minni um þetta mál koma inn á innflutning á fíkniefnum sem hefur stórlega vaxið síðustu misseri og aldrei hefur verið eins mikið flutt inn af ólöglegum fíkniefnum og er í dag. Verðið á markaðnum hefur þar af leiðandi lækkað vegna þess að framboðið er það mikið. Ég hef velt fyrir mér hvað hægt sé að gera. Stjórnmálin verða að móta skýra stefnu í þessum fíkniefnamálum. Það er ekki hægt að bjóða upp á það sem er í gangi í dag. Við í Miðflokknum komum með skýra tillögu í fyrra um að sporna við innflutningi á fíkniefnum með því að efla tolleftirlitið. Því var hafnað af öðrum flokkum og það er bara ekki nógu gott. Skýr stefna er það sem við þurfum að koma okkur upp um það hvernig við viljum bregðast við þessu og fylgja henni fast eftir. Það er náttúrlega hægt að segja eins og sumir hafa sagt að fíkniefni ættu að vera lögleg en ekki ólögleg en það er miklu stærra mál. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessu strax þarf að byggja undir starfsemi tollgæslunnar til að það að sporna við innflutningi geti verið raunhæft en ekki gert í einhverju skötulíki eins og þetta er í dag. (Gripið fram í.)