150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:14]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir er ég mjög hugsi yfir þessum vanda. Við erum að reyna að leysa hann með ýmsum hætti. Við trúðum því á tímabili að við gætum beitt refsingu til að leysa hann. Ég held að það sé líka mjög mikil einföldun að það að fjölga rúmum leysi þennan vanda. Þetta er miklu tengdara öðrum vandamálum, vanlíðan, geðröskunum og geðrænum vandamálum. Þetta er ekki eitthvert sjálfstætt fyrirbæri sem við setjum inn á Vog og svo er allt orðið gott. Við höfum beitt forvörnum. Þær er miklu meiri núna en þegar við vorum yngri, en vandinn vex og vex, og við eigum að velta fyrir okkur af hverju hann vaxi. Er eitthvað í okkar samfélagi sem veldur því að okkur líður verr? Er eitthvað í fjölskyldumynstrinu? Er það eitthvað annað? Hvað veldur þessu? Erum við agalaus? Er uppeldið í molum? Af hverju er þetta, af hverju líður okkur svona illa?

Ég kann ekki svarið við því. Ég held að við leysum ekkert hér í stuttri umræðu en þetta er ótrúlega flókið mál. Við getum velt fyrir okkur einhverjum lyfjaávísunum, hvort þær séu fleiri eða færri, það skiptir engu máli. Ef þær eru fleiri er svarti markaðurinn bara stærri og svo öfugt. Við getum talað okkur hás endalaust um þetta.

En af hverju líður okkur svona illa? Þeir sem eru verst staddir hafa farið í margar meðferðir, nánast allir. Það er fullt af úrræðum í boði, m.a. á Landspítalanum, í Hlaðgerðarkoti, á Vogi, en við náum ekki neinum árangri. (Forseti hringir.) Veltum fyrir okkur orsökunum, ekki alltaf glíma bara við afleiðingarnar.