150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:18]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt, sem kom fram hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, að ný reglugerð um lyfjaávísanir hafi dregið úr áskriftum að lyfjunum. Komið var inn á það áðan að verið væri að skrifa svo stóra skammta út á hverjum tíma, yfirleitt eru það þriggja mánaða skammtar sem verið er að leysa út fyrir fólk, að það mætti minnka þannig að við getum stjórnað einhverju með því bara að breyta aðeins til um það hvernig reglur og annað er í kringum þetta. Stefnumótunarvinna í meðferðarúrræðum er líka mjög góðar frétt. Þarna getum við með forvörnunum og með skimun gert stóra og mikla hluti og það er verið að skima gagnvart líðan, t.d. í framhaldsskólanum, þannig að þarna er verið að finna ákveðna einstaklinga sem verður hægt að hjálpa áfram, sem standa þar út úr. Börn yngri en 18 ára þurfa leyfi foreldra sem er gott en þegar þau verða eldri geta þau hafnað því að taka þátt í skimunum.

Annað sem einnig er verið að vinna að er bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu og það hefur verið bætt á heilsugæslunni, þannig að sálfræðingar séu þar líka. Gera þarf mun betur þar úti um allt land. Síðan eru ýmis verkefni í gangi því að þó að biðlistar séu langir eru ekki endilega allir á biðlistanum tilbúnir til að fara í meðferðina þegar að því kemur. Reykjavíkurborg er þó með mjög metnaðarfullt verkefni varðandi húsnæðismál heimilislausra sem oft eru einstaklingar sem eru í þessum hópi líka. Ég veit að Reykjavíkurborg óskar eftir aðstoð frá öðrum sveitarfélögum á landinu, sem eiga einstaklinga í þessum hópi, við að hjálpa til við fjármögnun sem er mjög gott því að þetta er ekki einsleitur hópur, það eru mjög mismunandi einstaklingar á þessum biðlistum.