150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:20]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hefur átt sér stað hérna. Mig langar að tala aðeins um fjölbreytni meðferðarúrræða og gæðaeftirlit vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt að einstaklingar, eins fjölbreyttir og þeir eru og eins margir og þeir eru, sem telja sig þurfa á hvers kyns meðferð og aðstoð að halda, geti valið fjölbreytt meðferðarúrræði sem miðist að þeirra þörfum. Vissulega geta margir leitað til t.d. AA-samtakanna en það hentar ekki öllum að ákalla einhvern æðri mátt til að takast á við sín vandamál. Það hentar heldur ekki öllum að fara í SÁÁ. Ég veit ekki betur en að þar sé mikil áhersla lögð t.d. á heilasjúkdómskenninguna þar sem því er haldið fram að fíkn sé heilasjúkdómur en minna litið til sálfræðilegra og félagsfræðilega þátta fíknivandans.

Þetta eru atriði sem mér finnst mikilvægt að skoða og mig langar líka í því samhengi að gauka spurningu að hæstv. ráðherra. Ég gladdist mjög að heyra að hún væri að vinna að heildarstefnumótun fyrir meðferð og meðferðarúrræði. Mér finnst það mjög mikilvægt sem og það að við verðum með gæðavísa og einhvers konar ytra eftirlit með því hvort það sé eitthvert gagn að þessum meðferðum. Ef við dælum gríðarlegum fjárhæðum í meðferðarúrræði, hvernig ætlum við að fylgja því eftir að þau meðferðarúrræði skili árangri?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur SÁÁ brugðist við ábendingum landlæknis um að setja sér mælanleg gæða- og þjónustumarkmið og koma upp innra eftirliti, m.a. í þeim tilgangi að hægt sé að sannreyna gæði og árangur þjónustunnar? Mig langar að spyrja um það. Mér finnst vissulega mjög mikilvægt að fólk komist í SÁÁ (Forseti hringir.) en líka að fleiri úrræði séu í boði. Síðast en ekki síst spyr ég hvort sú meðferð sem við bjóðum upp á og borgum fyrir skili einhverjum árangri og að við getum fylgst með að svo sé.