150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[16:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Getum við ekki öll verið sammála um að Akureyri er miðstöð norðurslóða á Íslandi? Ég kem hingað upp til að þakka hv. flutningsmanni fyrir tillöguna sem ég held að sé allrar athygli verð en vekur ýmsar spurningar og kannski aðallega um með hvaða hætti flutningsmenn sjái fyrir sér þessa formlegu staðfestingu á því að Akureyri verði miðstöð í málefnum norðurslóða á Íslandi og hvað fælist í þeirri formlegu staðfestingu. Síðan velti ég fyrir mér hvort flutningsmenn sjái fyrir sér hugsanlega þátttöku fleiri stofnana en nefndar eru sérstaklega í tillögunni. Upp í hugann kemur Jafnréttisstofa sem staðsett er á Akureyri og jafnréttismál eru eitt af stóru viðfangsefnunum í samstarfi á norðurslóðum. Ég velti fyrir mér hvort nýta mætti fleiri tækifæri en þau sem nefnd eru í tillögunni til að festa þetta starf í sessi og efla. Þá velti ég fyrir mér hvort þetta sé eingöngu mál utanríkisráðuneytisins eða hvort þyrfti að draga fleiri ráðuneyti að vinnunni, þótt ekki væri nema forsætisráðuneytið og jafnvel umhverfis- og auðlindaráðuneytið því að það hefur vissulega mjög mikilvægu hlutverki að gegna. En á hinn bóginn má segja að málefni norðurslóða fléttast náttúrlega inn í allt samfélagið. Eitt af því sem þar hefur verið ofarlega á baugi eru einmitt forvarnir eins og voru til umræðu hér fyrr í dag.