150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Við þekkjum umræðuna um þær kröfur sem settar voru á atvinnubílstjóra, kröfur sem kostuðu bílstjóra og þau fyrirtæki sem starfa á sviði vöru-, efnis- og fólksflutninga mikla peninga. Sú umræða hefur verið tekin í þingsal áður. Það sem er þó alvarlegast við innleiðingu þessarar Evróputilskipunar er ekki sá kostnaður sem lagður var á fyrirtækin og neytendur þeirra eða sú staðreynd að hún var ekki einu sinni hugsuð fyrir eyland heldur hitt að almennt eru einstaklingar ekki sviptir áunnum starfsréttindum. Stæði vilji framkvæmdarvaldsins til þess að breyta reglum er gilda um starfsréttindi í ákveðnum geirum atvinnulífsins skyldu þær alla jafna ekki vera afturvirkar. Í því tilfelli sem hér um ræðir var ekki einu sinni um að ræða klára námskrá til að dekka þau fimm námskeið sem hver og einn þurfti að ljúka. Í besta falli var u.þ.b. einn þriðji námskeiðsgagna nægjanlega vel undirbúinn. Þetta viðurkenndu kennarar þeirra námskeiða sem sá er hér stendur sat. Dýrmætum tíma vinnandi fólks var m.a. eytt í að spjalla og horfa á YouTube-vídeó um allt og ekkert.

Þá átti ég spjall við ökukennara sem hafði verið beðinn um að taka að sér kennslu á slíkum námskeiðum en hann afþakkaði, m.a. vegna þess hversu illa málið var undirbúið. Hann taldi sig hafa lítið að kenna, í sumum tilfellum bílstjórum með margra áratuga farsælan feril.

Á þessum forsendum, herra forseti, stóð og stendur enn til að svipta einstaklinga áður áunnum starfsréttindum. Hér er enn eitt dæmið um óvandaða innleiðingu á Evrópureglugerðum og það er með öllu óásættanlegt gagnvart einstaklingum og atvinnulífi. Ég mótmæli þess háttar vinnubrögðum og skora á Alþingi að finna leiðir til að endurskoða þessar reglur.