150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Kolbeinn H. Stefánsson var að skila og kynna fyrir velferðarnefnd og allsherjar- og menntamálanefnd skýrslu um fjöldaþróun örorkulífeyrisþega. Í samantekt hans segir m.a.:

„Örorkulífeyrisþegum fjölgaði á milli 2008 og 2019 og fóru frá því að vera 7% af mannfjölda á vinnualdri í janúar 2008 í 7,8% í janúar 2019. Um 0,4 prósentustig af hækkuninni er hægt að rekja til breytingar á aldurssamsetningu íbúa landsins og 0,4% til annarra þátta.

Stærstur hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega verður rakinn til kvenna 50 ára og eldri (rúm 40%), bæði vegna þess að vægi hópsins í mannfjöldanum hefur aukist, en einnig vegna hækkandi tíðni örorkulífeyrisþega í hópnum. Konur eru á hverjum tíma um 60% af örorkulífeyrisþegum og munurinn á milli karla og kvenna eykst með aldri, sem bendir til þess að stefnumótun þurfi að taka á því sem er ólíkt í lífshlaupi karla og kvenna og veldur þessum mun.

Frá janúar 2017 hefur fjöldi örorkulífeyrisþega svo gott sem staðið í stað við 18.000 einstaklinga en hlutfall hópsins af mannfjölda á vinnualdri hefur hins vegar lækkað, úr 8,2% í 7,8%.“

Mýtan, Grýlan sem hefur verið notuð sem risahækja til að lemja á kjörum öryrkja, um að öryrkjum fjölgi svo rosalega í hverju einasta skúmaskoti og horni þessa lands er dauð. Nú er kominn tími til að hætta að tala um að fjölgun öryrkja valdi tugmilljarðakostnaði sem er ekki til staðar nema í huga þeirra sem hafa notað þetta undanfarin ár. Við þurfum að sýna í verki að það þarf að hífa öryrkja upp og koma þeim á sama stað og láglaunafólk er á í dag, hækka þá strax um 70.000 kr. á mánuði þannig að þeir geti lifað mannsæmandi lífi.