150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki betur séð en fyrri leiðin sé sú sem við erum á núna, hvort sem okkur líkar betur eða verr, en mér hugnast betur sú síðari, þ.e. að setja skýrt framsalsákvæði í stjórnarskrá. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tíma til að ræða þetta. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Af öllum þeim mikilvægu stjórnarskrárbreytingum sem við ættum að ráðast í er þetta ein af þeim mikilvægari. Ekki vegna þess að það sé svo brýnt að auka heimildir yfirvalda til að framselja vald heldur til að gera það skýrt hvar línan sé eða hvort það sé yfir til höfuð lína vegna þess að það er nær algjört tómarúm í stjórnarskrá lýðveldisins um þetta í dag. Það er minnst á að forseti geti gert einhverja samninga en það er engin leiðsögn. Það eru engin viðmið. Það er engin lína.

Línan sem við lifum við í dag er í raun og veru sú að það er hringt í þennan fræðimanninn og síðan hinn fræðimanninn og svo er karpað og engin niðurstaða fæst fyrr en Alþingi tekur ákvörðun með atkvæðagreiðslu í þingsal. Það finnst mér ein afleitasta leiðin sem er hugsanleg til að ákvarða stjórnarskrárlegt samhæfi, að löggjafinn sjálfur, sem á jú að vera bundinn og takmarkaður af þeirri sömu stjórnarskrá, skuli ákveða hvað standist stjórnarskrá og hvað ekki. Mér finnst það persónulega afleitt. Mér finnst að slíkt eigi alltaf á endanum á einn hátt eða annan að vera hjá dómstólum og þá þurfa dómstólar auðvitað að hafa eitthvað fyrirsjáanlegt til að vinna úr. Í tilfelli framsals valds, sama hvernig á það er litið, hlýtur það að þurfa að vera skýrt.

Ég hygg að vegna þess að þetta tómarúm er til staðar í stjórnarskránni eins og hún er í dag séu í raun og veru engin takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga, svo lengi sem það er gengið nógu hægt og í raun og veru líka þótt gengið væri hratt. Ég held að það væri bara meira rifist um það, það væri heitara umræða, hún væri leiðinlegri, að öllum líkindum, og lengri. En þegar allt kemur til alls tel ég tómarúmið í gildandi stjórnarskrá varðandi þessi efni vera mjög raunverulegt vandamál og eitt af þeim brýnustu sem þarf að laga með nýrri stjórnarskrá.