150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

neytendalán.

223. mál
[17:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um eflingu neytendaverndar, eða réttara sagt frumvarp til laga um smálánafyrirtæki. Í þessu samhengi verð ég að benda á viðtal við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir hann smálánafyrirtækin fagna. Í fréttinni segir, með leyfi forseta:

„„Þetta frumvarp mun ekki gera neitt til þess að stöðva smálánastarfsemi hér á landi. Við hjá Neytendasamtökunum höfum bent á þessa skoðun okkar áður,“ segir Breki í samtali við Morgunblaðið og heldur áfram: „Samkvæmt þessu frumvarpi mun Neytendastofa fá heimild til að kalla eftir upplýsingum frá smálánafyrirtækjunum. Neytendastofu er svo sem heimilt að kalla og kalla eins og þau vilja. Það er ekkert sem segir að þessi fyrirtæki geti, muni eða verði að svara. Og svo eru ekki heldur nein viðurlög við því að svara ekki kallinu. Svo má ekki gleyma trúverðugleika þessara fyrirtækja. En fari svo að þau ákveði að svara kalli Neytendastofu þá er engin leið til að kanna réttmæti þeirra svara.““

Áfram segir Breki, með leyfi forseta:

„Það er þrennt sem við þurfum að gera sem komið getur í veg fyrir smálánastarfsemi hér á landi. Í fyrsta lagi þarf að lækka hámarksvexti, þeir eru hvergi jafn háir og á Íslandi. Í öðru lagi þarf að setja lög um innheimtu og kostnað vegna hennar og í þriðja lagi þarf að gera þessi fyrirtæki skráningarskyld en þó helst leyfisskyld.“

Í lok fréttarinnar segir:

„Þá segir Breki frumvarp ráðherra ekki snerta starfsemi smálánafyrirtækja. „Þau hljóta að fagna þessu frumvarpi. Þetta frumvarp mun ekki hafa nein áhrif. Vilji stjórnvöld í raun stöðva þessa starfsemi þá bendi ég á þessi þrjú atriði.““

Starfsemi þessara smálánafyrirtækja er að mörgu leyti óskiljanleg þegar maður les og kannar hvernig meðferðin hefur verið hjá þeim. Ég er hneykslaður á 50% kostnaði. Í því samhengi hef ég bent á að fyrir nokkrum tugum ára var stofnað fyrirtæki á Laugaveginum sem bauð einmitt svipaða vexti. Það var okurfyrirtæki og það var með atfylgi lögreglu sem það var stöðvað. En hugsið ykkur með þessi smálánafyrirtæki, það kemur meira að segja fram í frumvarpinu að árlegur hlutfallslegur kostnaður var rúmlega 3.300%. Hvað segir það okkur? Ég segi fyrir mitt leyti: Hvernig í ósköpunum höfum við getað látið þetta viðgangast? Hvers vegna í ósköpunum erum við ekki búin að stöðva þetta? Það er gjörsamlega óskiljanlegt. Maður verður eiginlega, eins og maður segir, kjaftstopp. Að svona fyrirtæki skuli vera leyfð, að þau séu ekki skráningarskyld eða leyfisskyld, að það skuli vera hægt að lána peningaupphæðir sem enginn virðist geta fylgst með, sem enginn veit hvaðan koma og enginn virðist geta upplýst eitt eða neitt um. Ég spyr: Á hvaða fornaldarstigi erum við í þessari baráttu? Síðan reyna Neytendasamtökin, og nú með dyggri aðstoð VR, að setja lögbann á almenna innheimtu. Beitt er ólöglegum aðferðum við innheimtu krafna, segir í lögbannsbeiðni, en það dugar ekki til. Það virðast einhvern veginn gilda allt önnur lögmál um þessa lánastarfsemi og þessa fjármálastarfsemi en banka og aðrar stofnanir.

Við erum ekki að byrja að tala um þetta í ár, ekki í fyrra og ekki í hittiðfyrra, við höfum verið að tala um þetta undanfarin ár. Á hverjum bitnar þetta? Jú, þetta bitnar á þeim sem síst skyldi. Það sem er furðulegast við þetta er að þeir einstaklingar sem lenda í þessu geta verið með, ekki eitt, ekki tvö heldur tugi lána upp á tugi þúsunda, hundruð þúsunda, milljón eða meira og það er ekkert stopp. Síðan eru rukkaðir 3.333% vextir. Og hvað skeður ef viðkomandi borgar ekki? Hann fer á vanskilaskrá hjá Creditinfo og í innheimtu hjá einhverju innheimtufyrirtæki. Ég bara neita að trúa því að ekki sé hægt að gera eitthvað í þessu máli og ég neita að trúa því að við skulum enn einu sinni vera að leggja eitthvað fram til þess að reyna að stöðva þessi fyrirtæki. Þetta á ekki að eiga sér stað. Við eigum að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að þetta verði stöðvað.

Nú er frumvarp komið fram og hv. þm. Oddný Harðardóttir benti á frumvarp Samfylkingarinnar. Auðvitað á að taka þessi frumvörp öll, það á að gera allt sem hægt er til að stöðva þetta, til að reyna að koma böndum á þessa ólöglegu starfsemi, sem ég tel kolólöglega. Eins og ég hef líka bent á vitum við ekki hvaðan peningarnir koma. Við afgreiddum það með hraði að samþykkt yrðu lög vegna þess að menn hræddust að við færum á svartan lista vegna peningaþvættis. Ég segi bara: Ég myndi vilja fá að vita hvaðan þessir peningar koma, hverjir eru á bak við þessa peninga og hvert allur þessi rosalegi kostnaður og vextir fara. Það hringja viðvörunarbjöllur um það en á einhvern hátt virðast þeir einstaklingar sem þarna eiga hlut að máli ósnertanlegir, þeir virðast geta smogið fram hjá öllu. Að það skuli vera hægt að hafa svona fyrirtæki starfandi í Danmörku, og hvernig fara fjármagnsflutningarnir þarna á milli? Hvernig er uppgjör þessara fyrirtækja? Það virðist ekkert vera uppi á borðum í þessu.

Ég verð að taka undir með Neytendasamtökunum í þessu máli. Mér sýnist á öllu að þetta frumvarp muni ekki skila því sem til var ætlast. Ég vona samt heitt og innilega að ráðherra leggi fljótlega fram annað frumvarp sem myndi stöðva þetta. Það þarf líka að taka á innheimtu þessara lána, þeim sem sjá um hana — og líka Creditinfo sem setur fólk í ótrúlegan vanda með því að skrá það á vanskilaskrá, fólk sem er í flestum tilvikum veikt, fólk sem er að reyna að redda sér. Ég þekki til þess að fólk hefur verið að taka smálán til að eiga fyrir mat og þá er það komið í rosalegan vítahring. Það er eiginlega ömurlegast af öllu ömurlegu að það skuli vera einstaklingar þarna úti sem þurfa að fara þessa leið til að eiga fyrir mat eða öðrum lífsnauðsynlegum hlutum. Það er efni í aðra ræðu á öðrum tíma. En eins og ég segi: Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að ekki skuli fyrir löngu vera búið að taka á þessu máli.