150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

smálánafyrirtæki.

[10:56]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og fagna því að meiri vinna sé í gangi í ráðuneytinu til að ná betri tökum á þessu. Ástæðan fyrir því að ég kem upp í þessa fyrirspurn — sem ráðherra kallaði kjarnyrta, sennilega fyrir það hve fá orð voru í henni, spurningin krafðist bara ekki meira orðagjálfurs — er að í umræðunum í gær var farið talsvert ítarlega í að það vantaði dálítið upp á og síðan höfum við nú viðbrögð Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, sem segir smálánafyrirtækin vafalaust vera að fagna. Þá segir Breki líka og þetta er, held ég, orðrétt eftir honum haft: „Þetta frumvarp mun ekki gera neitt til þess að stöðva smálánastarfsemi hér á landi.“ Ekki neitt. Þetta eru gríðarlega stór orð. Ég efast ekki um að hæstv. ráðherra hafði ásetning um að ná meiru en að gera ekki neitt. Hvað segir hæstv. ráðherra við þessum fullyrðingum Breka Karlssonar?