150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

smálánafyrirtæki.

[10:57]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Varðandi fyrstu viðbrögð Neytendasamtakanna við frumvarpinu valda þau mér vonbrigðum. Við áttum samtal við Neytendasamtökin en ég skil vel að þau vilji ganga mun lengra. Ég segi bara: Þær tillögur sem eru í þessari löggjöf snúa að ólögmætum lánum. Það eru þær tillögur í skýrslu starfshópsins sem við tökum upp, þær sem snúa að ólögmætum lánum. Þetta er auðvitað bundið við þessa löggjöf. Svo er hægt að hrinda í framkvæmd öðrum tillögum sem eru þá inni í annarri löggjöf sem þarf að leggja til. Ég heyri til að mynda að þau fjalla mikið um innheimtukostnaðinn og það er líka vandamál sem hefur birst frá því í sumar vegna þess að þetta er eins og að eltast við vondan sjúkdóm, þau stíga bara næsta skref og halda áfram og það er viðvarandi vinna og við erum að reyna að ná utan um það. En við getum ekki farið í aðgerðir sem hafa áhrif á allt það umhverfi, innheimtukostnaður er innheimta alls konar lána, lögmætra, eðlilegra lána. Við getum ekki farið í einhvern bútasaum sem hefur þannig áhrif á almenna innheimtu og það þarf að skoða. Það er einfaldlega það sem við erum að gera og það kallar líka á samstarf við dómsmálaráðuneytið. (Forseti hringir.) Svo skiptir máli að huga að fjártækni. Eins og ég hef áður nefnt er bullandi nýsköpun í gangi þar og allar aðgerðir í þessu (Forseti hringir.) geta ekki haft þannig áhrif að það kæfi niður þá nýsköpun og hindri hana, hún er tímabær og hún er mikilvæg.