150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

ástandið á Landspítalanum.

[15:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Starfsmenn á Landspítalanum hafa lýst ástandinu á stofnuninni sem svo að þar ríki neyðarástand. Formaður hjúkrunarráðs spítalans segir að öryggi sjúklinga sé ógnað. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst ráðherrann bregðast við neyðarástandi á Landspítalanum? Ég spyr í öðru lagi sérstaklega að því hvort hæstv. ráðherra telji ekki orðið ljóst að það sé tímabært að hverfa frá þeirri stefnu að setja stöðugt fleiri verkefni inn á Landspítalann. Fylgt hefur verið samþjöppunarstefnu þar sem ýmis þjónusta er í auknum mæli flutt jafnvel utan af landi eða frá öðrum stofnunum og sett inn á Landspítalann. Er ekki orðið ljóst að þetta gerir spítalanum erfitt fyrir og nánast ómögulegt að sinna hinu sérhæfða hlutverki sínu? Er ekki orðið tímabært að hverfa frá samþjöppunarstefnunni á Landspítalanum og dreifa þjónustunni meira á aðrar stofnanir og víðar um land?