150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með varaformannsstöðuna. Ég efast ekki um einbeittan vilja hans þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en líkt og formaður VG sagði á landsfundi um helgina hafið þið þurft að gera málamiðlanir og semja um framgang mála í þessari ríkisstjórn. Það þarf ekki mikinn speking til að átta sig á því að því lengra sem er á milli fólks í upphafi, þeim mun stærri þurfa málamiðlanirnar að vera. Þetta endurspeglast ekki síst í aðgerðum í loftslagsmálum.

Allt of litlu er varið í þennan málaflokk og það er ekki bara ég sem held því fram, það virðist vera skoðun grasrótar flokksins líka. Á landsfundi VG var lögð fram ályktun þar sem tekið var fram að verja þyrfti 2,5% af landsframleiðslu til loftslagsmála eins og milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna gerir kröfu um. Núverandi framlög eru langt frá þessu enda himinn og haf á milli Sjálfstæðisflokks og VG í þessum efnum. Það skyldi þó ekki einmitt vera ástæðan fyrir því að ályktuninni var breytt áður en hún var samþykkt og öll töluleg markmið tekin út.

Svo skemmtilega vill hins vegar til að á sama tíma samþykkti flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar viðamikla loftslagsályktun þar sem nákvæmlega sama markmið var samþykkt, 2,5%. Samfylkingin og Vinstri græn hefðu því ekki þurft að gera neinar málamiðlanir hygðust þau starfa saman í ríkisstjórn. Ég spyr þess vegna einfaldra spurninga, herra forseti. [Hlátur í þingsal.] Allir sérfræðingar segja að það þurfi tímasett, mælanleg og fjármögnuð markmið. Því spyr ég í fyrsta lagi: Er ráðherra sammála því? Og í öðru lagi og ekki síður: Telur hæstv. ráðherra að Vinstri græn nái nægilegum árangri í loftslagsmálum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum?