150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

aðgerðir í loftslagsmálum.

[15:15]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ekki veit ég hvort ég breyttist yfir nótt. Ég var einfaldlega að svara spurningum sem til mín var beint út frá þeim gögnum sem fyrir liggja. Það verður að vera þingmannsins að dæma um það sjálfur. Ég held að við þurfum að setja markið hærra þegar kemur að loftslagsmálum. Ég tek undir það með hv. þingmanni. Núna á næsta ári ber öllum ríkjum heims sem eiga aðild að Parísarsamningnum að setja fram ný markmið undir samningnum. Þar af hafa sum ríki í Evrópusambandinu rætt um að það þyrfti að vera 55% og ég tel að það sé eitthvað sem þurfi í heild sinni að horfa til. Að sjálfsögðu mun Ísland ekki verða eftirbátur Evrópusambandsins þegar kemur að þessu. Sá sem hér stendur er alla vega þeirrar skoðunar að við þurfum að vera hið minnsta á sama stað og það. En við skulum sjá hvað kemur út úr þessu. Það er ekki búið að semja um þetta (Forseti hringir.) á vegum Evrópusambandsins en auðvitað eigum við Íslendingar að setja markið hærra og stefna að meiri samdrætti. Ég tek undir það með hv. þingmanni.