150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

náttúruverndarmál.

[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég þakka svörin en engu að síður finnst mér skorta á svar við efnisinnihaldi spurningarinnar, hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að taka upp búvörusamninginn, ekki bara með tilliti til ofbeitar sem slíkrar heldur líka offramleiðslunnar. Hvatakerfi er innbyggt í búvörusamninginn og það hefur slæm áhrif á umhverfið. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að búvörusamningurinn verði tekinn upp á þessum forsendum, að við förum að beina styrkjunum í landnotkunina og styðja bændur á þeim forsendum? Ég ítreka að ég fagna því sérstaklega að við viljum gera betur í loftslagsmálum. Mér finnst það mjög mikilvæg yfirlýsing af hálfu ráðherra í ríkisstjórninni. Ég spyr enn og aftur: Hvernig ætlar hann að fá samstarfsflokkana með sér í þá vegferð að breyta viðmiðununum fyrir 2040 eins og Vinstri græn ályktuðu um um helgina? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að stefna Vinstri grænna í loftslagsmarkmiðunum, sem við í Viðreisn munum styðja, nái í gegn í þinginu? Hyggst hann taka (Forseti hringir.) þetta upp á vegum samstarfsflokkanna?