150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

Landspítalinn.

[15:24]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ástandið á Landspítalanum er grafalvarlegt. Sýkingavarnir á bráðamóttöku eru ekki tryggðar, viðunandi þjónusta fyrir fólk er ekki tryggð og þar af leiðandi er öryggi sjúklinga ógnað. Meðan þetta ástand er á bráðamóttökunni er sex tíma bið til að komast út af bráðamóttöku ekki rétt lýsing, það er margra daga bið. Á sama tíma eru gerðar enn meiri aðhaldskröfur á Landspítala. Það eru gerðar kröfur um að fresta viðhaldsverkefnum, aðhald í lyfjakostnaði og starfsmannavelta notuð til að fækka fólki. Það vantar fólk, t.d. hjúkrunarfræðinga, og það á að hætta að greiða hjúkrunarfræðingum vaktaálag.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er þetta eðlilegt ástand? Er ástandið orðið þannig að það er orðið lífshættulegt að snúa sér í lífshættu á bráðamóttökuna? Hvað á að gera í því ástandi? Á sama tíma þenst ríkisbáknið út, eftirlitsstofnanir fá nóg af peningum, það hafa aldrei verið aðrar eins tekjur en á sama tíma er verið að skera Landspítalann — það er búið að skera hann inn að beini, það er búið að skrapa beinið og nú á að fara að plokka í beinagrindina. Hvernig ætlar ráðherrann að taka á þessu ástandi og sjá til þess að fólk sem sækir spítalann heim sé öruggt? Við vitum að það er ekki öruggt í dag.