150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

Landspítalinn.

[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og forysta Landspítalans hefur raunar reifað á vettvangi fjárlaganefndar og líka við mig í heilbrigðisráðuneytinu, má eiginlega segja að sá rekstrarvandi sem við blasir á Landspítalanum núna sé sprottinn af mismunandi rótum. Ein þeirra róta er sú sem hv. þingmaður nefnir, sú staðreynd að hlutar af launahækkunum á fyrri stigum — ég er að tala um samninga sem voru undirritaðir fyrir alllöngum tíma — voru ekki bættir og eru í raun og veru komnir til fullra framkvæmda á síðasta eða þarsíðasta ári. Mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf að skoða og vil minna á að fjárstjórnarvaldið er hjá Alþingi.

Ég vil líka segja vegna ummæla hv. þingmanns um hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, reyndar nefndi hv. þingmaður ekki síðarnefndu stéttina, að þetta er auðvitað algjört lykilatriði. Þetta eru lykilstéttir og burðarvirkið í því að stofnunin gangi upp yfir höfuð eru hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar. Ég hef miklar væntingar til þess (Forseti hringir.) að það takist að búa sómasamlega um kjör þessara stétta.