150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

fjárfestingaleið Seðlabankans.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en hlýt þó að gera ákveðna athugasemd við það orðalag að hér hafi Seðlabanki Íslands beinlínis staðið fyrir peningaþvætti. Til upprifjunar um fjárfestingaleið Seðlabankans, sem var úrræði sem var ætlað að draga peninga til landsins á mjög sérstökum tímum eftir hrun, var fyrirkomulagið þannig að fjármálafyrirtæki höfðu milligöngu um að miðla til Seðlabankans umsóknum fjárfesta um þátttöku í slíkum gjaldeyrisútboðum og þar bar að gæta þess að fyrirhuguð fjárfesting uppfyllti kröfur Seðlabankans. Fjármálaeftirlitinu, eftirlitsstofnun okkar, bar að hafa eftirlit með því að þessi þátttaka væri í lagi, til að mynda með hliðsjón af lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Fjármálaeftirlitinu bar að staðfesta það gagnvart Seðlabankanum. Eftirlitið var því í höndum eftirlitsstofnunar okkar þannig að ekki er hægt að tala um að fjármunir hafi komið inn í landið algjörlega eftirlitslaust. Þetta hefur m.a. komið fram í svörum ráðherra við fyrirspurnum þingmanna, til að mynda í svari við fyrirspurn hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar.

Gjaldeyrisútboðin höfðu þann tilgang að losa um snjóhengjuna svokölluðu. Þau voru unnin með þessari leið. Það hefur komið fram sömuleiðis, af því að hv. þingmaður talaði um að ekki lægi fyrir hvað hefði komið frá svæðum sem skilgreind eru sem lágskattasvæði, að það voru 2,4% af heildarfjárhæðinni sem nam 120 milljörðum.

Hv. þingmaður spyr út í þetta mál og hvort ekki sé rétt að Alþingi taki það upp. Ég myndi leggja það til að annaðhvort efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar sem hv. þingmaður fer nú með formennsku, fari yfir þá skýrslu sem Seðlabankinn gaf beinlínis út um gjaldeyrisútboð bankans í ágúst sl. og hefur samkvæmt mínum upplýsingum ekki verið tekin til umfjöllunar (Forseti hringir.) á Alþingi.