150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

háskólastarf á landsbyggðinni.

[15:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við viljum að sjálfsögðu standa vörð um sjálfstæði háskólanna, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni. Það er mjög mikilvægt. Ég hef líka mikla trú á því að við stefnumótun, hvort sem er á háskólastiginu, framhaldsskólastiginu, leikskólastiginu eða hvar svo sem það er, höfum við öflugt forystufólk og það sé skýrt eignarhald á allri stefnumótun. Ég er sammála hv. þingmanni um mikilvægi sjálfstæðis háskólastigsins hvar sem er á landinu.

Varðandi þá þróun sem hefur verið hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri er í undirbúningi, eins og hv. þingmaður þekkir, flutningur á jarðræktartilraunum frá Korpu upp á Hvanneyri. Við erum að ráðast í umfangsmikla endurnýjun á húsnæði skólans að Reykjum þar sem er miðstöð jarðplöntuframleiðslu og ylræktar. Ég myndi segja að sú vinna sem við erum að leggja í núna á öllu háskólastiginu sé virkilega að skila sér, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. En ég vil líka hvetja okkur til þess að muna að það þarf líka ákveðna hugarfarsbreytingu (Forseti hringir.) ef við viljum efla menntun í öllu landinu.