150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:04]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga máli. Það er leitun að stefnu ríkisstjórnarinnar í sölu á bönkum og virðast yfirlýsingar stangast í sífellu á eftir því úr hvaða flokki þær koma. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað þá stefnu að dregið skuli úr eignarhaldi ríkisins á fjármálamarkaði og ég held að það sé brýnt verkefni og löngu tímabært. Ægivald ríkisins á fjármálamarkaði er ekki heilbrigt fyrir fjármálamarkaðinn og mér finnst því alltaf grautað saman í þessari umræðu hvernig við stýrum fjármálakerfinu í gegnum laga- og reglusetningu eða með eignarhaldi. Það gefur augaleið að hér, í þessum sal, er lagarammi fjármálamarkaðar mótaður og mjög mikilvægt að halda áfram að þróa hann og draga m.a. lærdóm af hruni en ekki síður af þeim áskorunum sem eru fram undan í fjármálakerfinu, hvernig við opnum á fjármálaþjónustu á milli landa, hvernig við tryggjum almenningi ávinning af þeirri miklu breytingu sem á sér stað með tilkomu fjártækni og mikillar lækkunar á ýmiss konar þóknunargjöldum, vaxtakostnaði og öðru þvílíku. Því miður höfum við þar ekki náð að fylgja þeirri þróun sem hefur átt sér stað erlendis. Það er mikill kostnaður í því fólginn fyrir íslensk heimili og ekki síður íslensk fyrirtæki.

Þess vegna vona ég sannarlega að við förum að fá botn í umræðuna um eignarhaldið en við megum heldur ekki missa sjónar á þessu mikilvæga verkefni. Við þurfum að tryggja hagsmuni neytenda og íslenskra fyrirtækja og það verður ekki gert með eignarhaldi ríkisins á bönkum. Það verður gert með því að tryggja að við búum hér við sams konar umgjörð, regluverk og tækifæri (Forseti hringir.) og við sjáum í nágrannalöndum okkar að er að þróast.