150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það er ýmislegt sem þarf að ræða þegar kemur að bankakerfinu. Eitt er hið háa kostnaðarhlutfall sem lengi vel hefur einkennt bankana hér. Nú hefur starfsmönnum bankakerfisins fækkað mjög. Á vissan hátt hafa bankarnir getað framkallað þá fækkun með því að breyta viðskiptavinum sínum í ólaunaða starfsmenn eins og allir þekkja sem hafa starfað við bankaviðskipti heima hjá sér, í heimabanka.

Stór og mikil mál eru órædd. Eitt er spurning um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, mjög mikilvægt atriði. Ég hlýt að nefna að það kemur eilítið spánskt fyrir sjónir að banki sem mestan part er í eigu ríkisins skuli vera með mikil áform um mjög stóra fjárfestingu í stórhýsi niður við höfn sem vafalaust mun reynast mjög dýr framkvæmd. Það er sérkennilegt að horfa upp á það, líka í ljósi þess að sú þróun er fyrirsjáanleg, sem hefur verið í gangi um skeið og ég var að nefna, að bankastarfsemi verður ekki föst í tíma. Hún er að breytast og áfram mun fækka í bankakerfinu. Bygging þessa stórhýsis er mjög sérkennileg og hafi ég skilið hæstv. ráðherra rétt er eins og honum komi hún nánast ekki við. Ég ætla ekki að leggja hæstv. ráðherra orð í munn en auðvitað gæti ráðherra, ef hann vildi, (Forseti hringir.) beitt sér í þessu máli.