150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða um íslenska bankakerfið. Almenningur hefur eðlilega áhuga á þessum málum, enda brenndur af hruninu. Þess vegna finnst mér gott að við séum hér í sérstakri umræðu að ræða þetta mál og velta upp ýmsum þáttum sem snúa að bankakerfinu. Hvað varðar framtíðarsýnina tel ég mikilvægt að traust ríki í garð bankakerfisins og að það byggi á því að bankakerfið sé traustsins vert. Ég tel að hluti af því sé að viðhafðar séu háar eiginfjárkröfur og að hér séu eftirlitsstofnanir sem hafi burði til að fylgjast með bankakerfinu. Þetta held ég að skipti líka máli vegna þess að traust til bankakerfisins er lítið og það tengist því að fólk er brennt af bankakerfinu.

Ég held hins vegar að ekki megi lesa of mikið úr því sem stendur í stjórnarsáttmálanum um að hér eigi að selja bankana. Það er talað um að draga úr eignarhaldi. Það er talsverður munur á því og að selja allt heila klabbið.

Ég tel mikilvægt að það sé aðskilnaður á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi og ég tel jafnframt mikilvægt að við ræðum það núna þegar við erum að ræða breytt eignarhald ríkisins á bönkum hvernig það getur verið inn í framtíðina. (Forseti hringir.) Þar geti grænn banki eða loftslagsbanki skipt máli þar sem það getur orðið innlegg inn í umræðuna um loftslagsmál og gagnast okkur í þeirri vinnu.