150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það er ekki laust við að manni finnist sem umræðan um þennan málaflokk breytist ekkert, jafnvel þótt lög og reglur, regluverkið allt, hafi tekið stórkostlegum breytingum. Hingað stíga upp þingmenn sem spyrja: Hvað hefur breyst? Það er ágætisspurning vegna þess að það var einmitt undir fyrirsögninni Hvað hefur breyst? sem Samtök fjármálafyrirtækja tóku saman sérstaka mjög umfangsmikla skýrslu á árinu 2016 sem sýnir hvernig regluverkið um fjármálamarkaðinn er gjörbreytt. Við höfum áfram verið að breyta regluverkinu og ég hef hér í dag rakið dæmi um frumvörp sem eru komin fram, lög sem hafa nýlega verið samþykkt og frumvörp sem eru í farvatninu til að fylgja eftir tillögum, m.a. úr hvítbókinni sem ég ætla að mótmæla að hafi verið illa tekið. Henni var frábærlega vel tekið, meira að segja í þinginu var henni mjög vel tekið. Hún er mikilvægt innlegg í umræðu um stöðu fjármálakerfisins, samanburð við önnur lönd og þarfar breytingar til að styrkja enn frekar umgjörðina með fjármálastarfseminni.

Hér var efnt til umræðu til að ræða um áform stjórnvalda um eignarhaldið og ég hef gert grein fyrir því hér að málshefjandi er sú sem fyrir mörgum árum mælti fyrir frumvarpi til laga um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og fylgdi því eftir með þeim orðum að það væri orðið tímabært að fara að huga að sölu eignarhluta ríkisins. Þess vegna finnst mér skjóta dálítið skökku við þegar þeir hinir sömu koma hingað upp þetta mörgum árum síðar og segja: Það ber ekki að flýta sér.

Það sem við erum að gera er að vanda okkur. Við vinnum þetta með mjög gagnsæjum hætti. Við vinnum þetta á grundvelli vinnu sem mikill tími og metnaður hefur farið í og þar er ég að vísa í hvítbókina. Ég færi líka þau skilaboð inn í þessa umræðu að það er ekki alveg augljóst hvernig ríkið á að draga úr eignarhlut sínum í fjármálafyrirtækjum. Þar eru til ólíkar leiðir. Við þurfum að leita ráðgjafar hjá Bankasýslunni og (Forseti hringir.) síðan eru líka þættir sem við höfum enga stjórn á sem geta ráðið miklu um það hvenær er tímabært og skynsamlegt að stíga skrefið. Þetta þarf allt saman að meta. Það eru fjölmörg matsatriði sem við þurfum að ræða síðar sem taka þarf tillit til í þessari umræðu.