150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera.

98. mál
[16:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að ég hafi rakið í nokkuð löngu máli það starf sem er unnið á þessu sviði og um þetta málefni og vísa m.a. til kjaratölfræðinefndar. Hins vegar er líka einn mælikvarði á það hvernig stjórnvöldum tekst með framgangi sínum að vinna að trausti við þessa vinnu alla, að við höfum nýlega séð gerða kjarasamninga á almenna markaðnum til langs tíma og yfir stendur lota við opinbera geirann sem ég hef ágætisvæntingar til að geti fengið farsæla niðurstöðu. Á endanum er einn mikilvægasti mælikvarðinn á það hvernig stjórnvöld hverju sinni hafa fundið samstarfsfleti um mikilvæg mál fyrir vinnumarkaðinn, nefnilega það hvernig gengur að skapa frið á vinnumarkaði.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp mikilvægt mál vegna þess að jafnræði við launasetningu er mikilvægt mál og mál sem í gegnum áratugina hefur kannski ekki fengið eðlilega athygli. Leiðir að því markmiði geta verið margar og verið í vinnu samhliða. Margt hefur líka áunnist varðandi kynbundinn launamun hjá hinu opinbera á undanförnum árum sem er ágætt að hafa í huga.