150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.

178. mál
[16:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir tækifærið til að ræða þessi mál í þinginu. Ég vil byrja á því að minnast á almenna eigendastefnu ríkisins fyrir hlutafélög og sameignarfélög frá 2012 og eins eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Almenna stefnan nær til félaga í C-hluta ríkissjóðs og einnig er horft til þess að félög í B-hluta taki mið af henni eftir því sem við getur átt. Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki var endurskoðuð árið 2017 og hún nær til þeirra fjármálafyrirtækja sem Bankasýsla ríkisins hefur umsjón með. Þannig er í gildi eigendastefna fyrir bæði Landsvirkjun og Isavia eins og önnur félög í meirihlutaeigu ríkisins. Unnið er að endurskoðun á almennu eigendastefnunni í ráðuneytinu. Með því að segja að það sé í gildi eigendastefna er ég að vísa í þessa almennu eigendastefnu. Þar er gerð grein fyrir almennum meginreglum og markmiðum ríkisins með eignarhaldi og rekstri félaga ásamt árangursviðmiðum, viðmiðum um stjórnarhætti og upplýsingamiðlun.

Samhliða er unnið að sérstökum reglum um val á stjórnarmönnum í stjórnir félaga í eigu ríkisins og er gert ráð fyrir að þær verði hluti af almennu eigendastefnunni. Auk fyrrgreindrar vinnu hefur verið unnið að gerð viðauka við almennu eigendastefnuna þar sem sett verða fram sérstök viðmið og markmið fyrir einstaka geira eða fyrirtæki, eftir þörfum. Lögð er áhersla á að slíkir viðaukar verði stuttir og hnitmiðaðir og feli ekki í sér endurtekningu á þeim viðmiðum sem sett eru fram í almennu eigendastefnu ríkisins.

Spurt er hversu langt við erum komin í vinnslu slíkra viðauka fyrir Landsvirkjun og Isavia sérstaklega. Ég get bara greint frá því að þessi vinna stendur yfir. Hún hefur gengið ágætlega. Ég hefði viljað sjá meiri framgang í henni engu að síður en við höfum reglulega setið saman í ráðherranefnd og rætt um þau atriði sem við í stjórnarflokkunum teljum að sé mikilvægt að rætt sé um í slíkum viðaukum. Það hefur hjálpað til við að þoka vinnunni áfram. Það er unnið að gerð flugstefnu í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og hefur verið talið eðlilegt að viðaukinn um Isavia taki mið af flugstefnunni. Stefnt er að því að drög að viðauka um Isavia verði birt til umsagnar á næstu vikum í samræmi við þetta.

Í stjórnarsáttmála er lagt til að eigendastefna fyrir Landsvirkjun taki mið af orkustefnu sem nú er unnið að á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Unnin hafa verið drög að viðauka við eigendastefnu fyrir orkufyrirtæki og er stefnt að því að þau verði birt til umsagnar eftir að orkustefnan hefur verið samþykkt.

Aðeins um það hvernig við höfum unnið að þessum verkefnum. Það hefur verið leitað óformlega eftir sjónarmiðum ýmissa aðila varðandi efnisatriði þessara viðauka. Skoðaðar hafa verið eigendastefnur eða viðmið fyrir sambærileg félög í nágrannalöndum eftir því sem það getur átt við og við höfum sömuleiðis horft til leiðbeininga alþjóðastofnana um stjórnarhætti. Þá hefur verið litið til stefnu stjórnvalda á þeim sviðum sem tengjast starfsemi einstakra félaga eða geira. Einnig er horft til almennra stefnumiða stjórnvalda eftir því sem við á, svo sem á sviði sjálfbærni og loftslagsmála. Að loknu samráði innan Stjórnarráðsins og við viðkomandi félög verða drög að ofangreindum viðaukum kynnt í ráðherranefnd og í ríkisstjórn. Eftir það verða lokadrög sett á samráðsvettvang stjórnvalda þar sem hagaðilar og almenningur getað komið með athugasemdir. Loks verður farið yfir fengnar athugasemdir og stefnan aðlöguð eftir þörfum og kynnt fyrir ráðherra, viðeigandi ráðherranefnd og ríkisstjórn áður en hún er birt formlega.

Ég myndi segja að það sé eðlilegt að í beinu framhaldi af þessu væri efnið kynnt þingmönnum í viðeigandi þingnefndum. Ég get alveg séð fyrir mér að slíkt samtal geti sömuleiðis farið fram á samráðstímanum, þ.e. eftir að gögnin hafa verið birt í samráðsgáttinni, ef eftir því væri óskað af viðkomandi þingnefndum.