150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.

178. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög víðfeðm og ég hef eina mínútu. Ég hef áhuga á að vita hvort ráðherra hyggst beita sér fyrir því að í eigendastefnu þessara fyrirtækja og fleiri ohf.-fyrirtækja, svo sem eins og RÚV ohf. og Landsbankans, verði greidd gata þeirra kjörnu fulltrúa sem vilja fá upplýsingar um starfsemi þessara fyrirtækja. Þau eru í eigu þjóðarinnar og þjóðin og fulltrúar hennar eiga fullan rétt á því að fá upplýsingar um rekstur, rekstrarfyrirkomulag o.s.frv. Ég minni á nýsvaraða fyrirspurn sem sá sem hér stendur lagði fram fyrir ráðherra þar sem spurt var um kostnað Landsvirkjunar við undirbúning að lagningu sæstrengs undanfarin tíu ár. Fékk engin svör. Það eru sex atriði í upplýsingalögum sem tilgreind eru sem ástæður fyrir því að svara ekki; öryggi þjóðarinnar og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er algerlega óþolandi og taka þarf á þessu. Því spyr ég ráðherra: Er ætlunin að í eigendastefnu verði upplýsingaskylda?