150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.

178. mál
[16:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég lít á það sem mitt hlutverk að koma þessum umræðum af stað og ætla ekki að ræða einstök stefnuatriði í flugmálum eða spyrja fleiri spurninga. Mér fannst hins vegar mjög skýrandi hvernig eigendastefnan byggir annars vegar á almennum grunni og síðan á þeim viðaukum sem hæstv. ráðherrann nefndi. Þetta er nýtt fyrir mér og kannski fyrir flestum hv. þingmönnum, held ég.

Það er fyllilega eðlilegt að þegar stefnudrögin verða komin í samráðsgáttina fari þingnefnd yfir þau og að sjálfsögðu Alþingi líka. Það verður mjög forvitnilegt að sjá hvað er inni og hvað er ekki inni í því sem maður kallar eigendastefnu ríkisfyrirtækis. Ég geri mér ekki grein fyrir því og vænti mikils þegar þessi drög og plögg loksins koma fram. Ég veit að þetta hefur verið nokkuð langur meðgöngutími en það skal jú taka góðan tíma þegar á að vanda til hlutanna. Ég endurtek þakkir til bæði þingmanna og hæstv. ráðherra fyrir þessa umræðu.