150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

lyfjamál.

194. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Yfirlýst markmið hæstv. heilbrigðisráðherra með þátttöku í samnorrænum lyfjaútboðum er annars vegar að lækka lyfjaverð til ríkisins og hins vegar að auka afhendingaröryggi lyfja hér á landi. Fyrsta spurningin sem ég hef hug á að fá svör hæstv. ráðherra við hér varðar útgjöld hins opinbera til lyfjakaupa undanfarin ár og það í hlutfalli við heilbrigðisútgjöld almennt.

Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að útgjöld til lyfja á næsta ári verði rúmlega 8% af heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Ég hef hug á að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvort það hlutfall fari vaxandi eða minnkandi með árunum og hvert það er annars staðar á Norðurlöndum.

Síðastliðið vor bárust fréttir af því að Ísland væri farið að taka þátt í samnorrænum lyfjaútboðum. Þar hefði hæstv. heilbrigðisráðherra skrifað fyrir hönd Íslands undir viðauka um slíkt samkomulag Dana og Norðmanna um sameiginlegt lyfjaútboð. Því spyr ég í öðru lagi hvort Ísland sé nú orðið fullgildur þátttakandi í samnorrænum lyfjaútboðum sem hafa verið boðuð og eru að einhverju leyti komin til framkvæmda. Ég hef sérstakan áhuga á að vita hjá hæstv. ráðherra hvernig leyst hefur verið úr vandamálum eða áskorunum sem tengjast legu Íslands og smæð lyfjamarkaðarins hvað varðar kostnað við aðföng, dreifingu og skráningu. En eðli málsins samkvæmt felast þessi samnorrænu útboð í því að lyfið kostar X-upphæð fyrir afhendingu inn á gólf sjúkrahúsa og er töluverður munur á hvort þau eru í Ósló, Kaupmannahöfn eða Reykjavík svo að dæmi sé tekið.

Spurningarnar sem velt hefur verið upp í þessu tilfelli eru einmitt um afhendinguna sjálfa sem og lyfjaskráningu og seðlana, þ.e. hvort þeir verði á íslensku eða á Norðurlandatungumálum eins og oft hefur verið reynt. Er þá verið að slaka á í öryggiskröfum eða er Ísland að horfa til þess að fá einhverjar undanþágur í þessu samnorræna útboði?

Í þriðja lagi langar mig að ræða um afhendingaröryggi lyfja sem er eðli málsins samkvæmt mjög mikilvægt. Lyfjaskortur er heimsvandamál og kemur oft til vegna vandamála í framleiðslu frekar en að það tengist Íslandi sérstaklega að öðru leyti en því að við lendum neðarlega á forgangslistanum. Landspítalinn hefur til þessa í útboðsskilmálum sínum reynt að taka á þessari skorthættu með því að gera kröfu um að þjónustufyrirtæki séu með tveggja mánaða birgðir í landinu og geti afhent lyf með sólarhringsfyrirvara, en í þessu sameiginlega norræna útboði sem Ísland tók þátt í er kveðið á um þriggja sólarhringa fyrirvara og tveggja mánaða öryggisbirgðir, vissulega, en hjá framleiðanda, ekki á Íslandi. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að sameiginleg norræn útboð sporni við vaxandi lyfjaskorti á Íslandi og auki afhendingaröryggið.

Síðan með lyfjaverðið, af því að þessi sameiginlegu norrænu útboð eru fyrst og fremst ætluð þessum veltumiklu lyfjum sem skilja þá eftir (Forseti hringir.) 80% lyfja með litla veltu, en þau eru jafn nauðsynleg þeim einstaklingum sem þurfa á þeim að halda. Ég spyr því að lokum hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi áhyggjur af því að þessi breyting, ef af verður, sem er vissulega virðingarverð tilraun til að (Forseti hringir.) lækka lyfjakostnað, geti mögulega haft neikvæð áhrif á þessi veltulitlu lyf þannig að þau fáist síður á markaði hér á landi.