150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

menntun lögreglumanna.

233. mál
[17:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka líka hv. þingmanni kærlega fyrir þessa umræðu og öðrum þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni af því að mikilvægt er að við fylgjumst alltaf vel með og förum eftir þeim breytingum sem við gerum hér svo að þær séu til góðs.

Varðandi þær spurningar sem ég hef fengið var ein um hvort allir lögreglumennirnir sem hafa útskrifast úr þessu námi væru komnir með starf. Tölur liggja fyrir úr þeim árgangi sem útskrifast 2018 og þar voru allir í starfi þann 1. febrúar 2019. Þar voru 17 skipaðir lögreglumenn samkvæmt lögreglulögum, 26 voru settir og einn lögreglumaður með tímabundna ráðningu, en allir með störf. Ekki liggja tölur fyrir um þann árgang sem útskrifaðist 2019.

Einnig var spurt um sykursýki. Það er samkvæmt reglum alltaf háð mati læknis, hvort sem um er að ræða flogaveiki, sykursýki, hjartasjúkdóma, taugasjúkdóma eða aðra sjúkdóma. Þetta kemur fram í handbók valnefndar Lögregluskóla ríkisins. Mikilvægt er að þær reglur séu sanngjarnar og í samræmi við aðrar reglur sem við erum með varðandi sjúkdóma, en fyrst og fremst að þeir séu andlega og líkamlega heilbrigðir til að standast vinnuna. Ég býst við að þetta þurfi að fylgja þeirri þróun sem við sjáum annars staðar eins og hv. þingmaður nefndi varðandi flugið.

Hvað varðar stöðuna á starfsnáminu er verið að setja vinnu í að efla það og auka verkþekkinguna og verklega þjálfun og finna það jafnvægi sem við verðum að finna í háskólanámi. Verklega þekkingin er jafn mikilvæg og sú bóklega og mikilvægt að við leggjum áherslu á þetta núna þegar við tökum námið til skoðunar.