150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[17:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að blanda mér í umræðu um mengun skemmtiferðaskipa sem er eitt af mjög mikilvægum málum varðandi það hvernig við höldum á umhverfismálum okkar og eftir atvikum mengun annarra skipa líka.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvers hlutverk það sé að fylgjast með mengun frá skipum í höfnum. Hver fylgir því eftir að svartolíu sé ekki brennt í höfn? Á sama hátt spyr ég: Hvaða aðili fylgist með því að mengunarvarnabúnaður um borð í skipum sé nýttur eins og upp er gefið, að hann sé nýttur í öllum tilfellum þar sem hann er til staðar? Eins og ég skil málið getur það verið valkvætt og einmitt farið eftir því hvar skipin eru stödd hvaða kröfur eru gerðar til útblásturs á hverjum stað.