150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[18:00]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessar fínu umræður. Til að svara aðeins spurningu hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur er það í rauninni Umhverfisstofnun sem fylgist með magni brennisteinsdíoxíðsins í olíunni og Samgöngustofa á að hafa eftirlit með mengunarvarnabúnaðinum sjálfum í skipinu.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kemur inn á mjög mikilvægt atriði sem er landtaka léttabáta frá skemmtiferðaskipum og nefndi friðlandið á Hornströndum sem dæmi um það. Ég tek undir það með þingmanninum að ég tel mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með því hvernig gengur þar, það er búið að setja ákveðið fordæmi inn í reglur sem gilda um þetta friðland og með hvaða hætti við getum lært af því, hver verður reynslan af þessu o.s.frv. Ég tek undir að þarna er náttúrlega líka í sumum tilfellum um að ræða stórt náttúruverndarmál sem hefur einfaldlega með ágang ferðamanna á náttúru landsins að gera.

Ég tek líka undir með hv. fyrirspyrjanda, ég held að við getum gert betur í þessum mælingum. Líkt og við höfum bæði komið inn á eru mælistöðvarnar ekkert endilega á þeim stöðum sem mæla akkúrat þetta, enda hefur meginþunginn kannski legið í að reyna að ná utan um bílaumferðina sem er náttúrlega mikilvægt líka.

Ég tek síðan undir það að langtímamarkmið okkar á að vera að banna að flytja svartolíu á norðurslóðum, ekki bara að brenna henni. Það skref sem við erum að taka núna með því að draga stórlega úr og nær banna hana í íslenskri landhelgi, sem hefur hvergi annars staðar verið gert svo ég viti til nema í afmörkuðum fjörðum og flóum, er stórt skref fram á við sem ég er mjög ánægður með að muni taka gildi, vonandi núna um áramótin.