150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur mjög skiljanleg spurning sem snýr að því hvort með því að fara í sjóðsöfnun séum við að draga úr getu okkar til þess að sinna samneyslunni að öðru leyti. Ég hef orðið þess var að samhengi þessa máls við opinber fjármál er ekki öllum alveg skýrt en mig langar til að láta þess getið að tekjurnar sem kæmu sem arðgreiðslur frá orkufyrirtækjunum færast til tekna í reikningum ríkisins en framlag ríkisins inn í þjóðarsjóðinn færist ekki sem gjöld heldur myndast þar eign. Þannig gengur tilvist þjóðarsjóðsins ekki neitt á heildarafkomu ríkissjóðs á hverju ári og dregur þannig í engu úr svigrúmi ríkissjóðs til að standa undir sameiginlegum verkefnum okkar, enda getum við fjármagnað þau.

Þannig vill til, eins og ég hef verið að rekja, að við erum komin með mjög hagstæða skuldastöðu. Við erum búin að ná markmiðum okkar og viðmiðum í fjármálareglunum. (Forseti hringir.) Þessum verkefnum eigum við að geta sinnt af myndarbrag án tillits til þess hvort þjóðarsjóði verður komið á fót eða ekki.