150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir málinu fyrir tæpu ári síðan sagði hann um þessa hugmynd, með leyfi forseta:

„... sem ég þreytist ekki á að segja að byggir í raun og veru alfarið á samstöðu í þingi og til lengri framtíðar vegna þess að til lítils er að leggja af stað í þetta mikla langferð sem sjóðsöfnun sem þessi er ef það er gert í átökum og menn eru ósammála um grundvallaratriði þannig að ólíklegt er að sáttin eða meirihlutaviljinn haldist til lengri tíma. Það er mjög mikils virði.“

Síðan kemur hæstv. ráðherra nú, leggur nánast sama mál fram, tekur örlítið tillit til meirihlutaálitsins en þegar málið var afgreitt út úr efnahags- og viðskiptanefnd í vor var það gert með fjórum nefndarálitum. Það er algjörlega ljóst að það er engin sátt um þessa leið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skipt um skoðun á því að það sé mikilvægt að það sé þverpólitísk sátt um sjóðsöfnun sem þessa.