150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú þegar við ræðum aftur í 1. umr. hugmynd um þjóðarsjóð er kannski rétt að rifja upp hvernig staðan var þegar málið var afgreitt úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd í vor. Málið kom aldrei til afgreiðslu vegna þess að ekki var sátt um málið og það hefði aldrei gengið í þinglokasamningum að láta það á dagskrá því að málið var afgreitt út úr nefndinni í ósátt og með fjórum nefndarálitum.

Sú sem hér stendur og fulltrúi Pírata í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Smári McCarthy, settu saman nefndarálit og ég vil nú, þegar við hefjum aftur umræðu um þetta mál, rifja aðeins upp hvað það var sem við settum fram í því áliti. Það kom fram í andsvari áðan hjá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur, þingmanni Vinstri grænna, að henni fannst málið hafi þroskast mikið frá því það var lagt fram fyrir tæpu ári en ég get ekki tekið undir þá skoðun. Þó að talað sé um grænar áherslur, sem er bara ágætt, og að einhverju leyti tekið tillit til athugasemda frá Fjármálaeftirlitinu, sem meiri hluti nefndarinnar lagði til breytingar á, eru enn grundvallaratriði sem ósætti er um varðandi þennan sjóð.

Útfærsla hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í frumvarpinu er að okkar mati, þ.e. mínu og fulltrúa Pírata í nefndinni, ámælisverð, svo sem varðandi úthýsingu á rekstri þjóðarsjóðs til einkaaðila á fjármálamarkaði, hugtakanotkun, gildissvið, fjármögnun sjóðsins eingöngu með arði á orkufyrirtækjum í eigu ríkisins og stofnun sjóðsins á tímum þegar ríkissjóður glímir við ófjármagnaðar skuldbindingar. Það kom okkur á óvart að eingöngu tekjur af orkuauðlindinni eigi að renna í sjóðinn en ekki tekjur af öllum auðlindum, svo sem veiðigjald af nytjastofnum sjávar. Tekjur af veiðigjaldi eru hreinar auðlindatekjur og því rökrétt að þær rynnu í sjóð frekar en tekjur af fjármagni ríkisins í orkufyrirtækjum. Almennt virðast aðrir fullveldissjóðir byggjast á auðlindum og því er sú spurning áleitin hvers vegna nytjastofnar sjávar eru undanskildir í þessu fyrsta skrefi. Sama á við um tekjur af komu erlendra ferðamanna. Þannig gæti sjóðurinn orðið sveiflujöfnunarsjóður og tekjur tengdar við útflutningsgreinar. Þegar vel árar verði safnað í sjóðinn en mögulegt að taka úr honum ef illa gengi.

Nærtækasta skýringin á því að þessi sjóður er ekki skilgreindur sem auðlindasjóður er að stjórnarflokkarnir telji að innan þeirra náist ekki samstaða um að lýsa nytjastofna sjávar sem þjóðareign og að rentan af þeim renni í þjóðarsjóð. Þessi skýring fær byr undir báða vængi í nefndaráliti meiri hlutans sem afgreitt var úr efnahags- og viðskiptanefnd í vor þar sem fram kemur að meiri hlutinn telji nauðsynlegt að ljúka vinnu við viðbót auðlindaákvæðis í stjórnarskrá áður en ákvörðun um að arður eða tekjur af öðrum sameiginlegum auðlindum en orkuauðlindinni renni í sjóðinn.

Með því að stíga þetta skref án þess að nytjastofnar sjávar fylgi með er verið að skilja á milli auðlinda sem eru í ævarandi þjóðareign, þ.e. nytjastofna sjávar annars vegar og orkuauðlinda í eigu hins opinbera hins vegar. Mun eðlilegra væri að tekjur af takmörkuðum auðlindum rynnu í þjóðarsjóð frekar en tekjur af endurnýjanlegum auðlindum líkt og á við um norska olíusjóðinn.

Ríkissjóður ber enn mikinn vaxtakostnað og erfitt er að rökstyðja að fjármagna eigi sjóðsöfnun á meðan slíkt varir, enda er ákvæði í frumvarpinu um að gera hann tímabundið óvirkan eða eins og segir í greinargerð með frumvarpinu um bráðabirgðaákvæði þess:

„Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er jafnframt kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu að árleg framlög í þjóðarsjóð verði tímabundið lægri en arðgreiðslutekjurnar þar sem hluta þeirra verði varið annars vegar til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma og hins vegar til eflingar á nýsköpun atvinnuveganna. Þar sem nýttur verður tiltekinn hluti nýrra tekna til þessara tímabundnu sérverkefna mun sú ráðstöfun engin áhrif hafa á afkomu ríkissjóðs.“

Þetta gerir sjóðinn að gegnumstreymissjóði eða öllu heldur að bókhaldslykli í fjárhagskerfi ríkisins næstu þrjú árin. Það eitt og sér er ágætismál en ekki tilefni til mikilla upphrópana eða samþykktar frumvarpsins.

Í tillögum sem settar voru fram í skýrslu auðlindastefnunefndar til Alþingis í september 2012 var lagt til að settur yrði upp auðlindareikningur þar sem teknar yrðu saman allar tekjur þjóðarinnar af auðlindum hennar. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Því leggur nefndin til að í þeim tilfellum þar sem auðlindaarður stafar af nýtingu endurnýjanlegra auðlinda verði ekki um eiginlega sjóðsöfnun að ræða heldur verði arðinum ráðstafað með sýnilegum hætti í verkefni og málaflokka af fjárveitingavaldinu. Til að ná umræddum sýnileika leggur auðlindastefnunefnd til að settur verði upp sérstakur Auðlindareikningur. Þar verði birtar tekjur þjóðarinnar af auðlindum sínum, þ.e. auðlindaarðurinn eða sá hluti auðlindarentunnar sem til verður vegna nýtingar auðlinda í eigu eða umsjón ríkisins og það gerir tilkall til fyrir hönd þjóðarinnar. Gert er ráð fyrir því að Auðlindareikningur verði hluti af ríkisreikningi auk þess að vera birtur sérstaklega með fjárlagafrumvarpi ásamt greinargerð. Sýnileiki ráðstöfunar auðlindaarðsins felst svo í því að sérgreining tekna á Auðlindareikningi og ráðstöfun þeirra til verkefna og málaflokka verði hluti fjárlaga.“

Í skýrslu auðlindastefnunefndar er einnig lagt til að undirbúningur verði hafinn að stofnun Auðlindasjóðs sem ávaxti þann hluta auðlindaarðsins sem stafar af nýtingu óendurnýjanlegra auðlinda, samanber markmiðin með stofnun „Lífeyrissjóðs norsku þjóðarinnar“.

Í framhaldi af og í samræmi við tillögur auðlindastefnunefndar var að frumkvæði fjármálaráðherra Samfylkingarinnar, þeirrar sem hér stendur, sett ákvæði um auðlindareikning inn í frumvarp til laga um opinber fjármál og er það ákvæði nú í 56. gr. laga nr. 123/2015, sem hefur fyrirsögnina „Gerð ríkisreiknings“. Í 2. mgr. greinarinnar kemur m.a. fram að fyrri hluti ríkisreiknings, sem nær yfir fjárreiður A-hluta ríkissjóðs í heild, skuli innihalda yfirlit sem sýni tekjur ríkissjóðs af nýtingu auðlinda í ríkiseigu og vegna takmarkaðra réttinda sem stjórnvöld ráðstafa. Enn hafa ákvæði 56. gr. ekki öll komið til framkvæmda en 1. minni hluti telur að lagasetning um þjóðarsjóð eigi í það minnsta að bíða þar til ákvæði 7. töluliðar 2. mgr. 56. gr. laga um opinber fjármál hefur verið uppfyllt. Einnig er mikilvægt að gefa ráðrúm til vandaðri vinnubragða og að auðlindarentuskattur verði lagður á öll raforkufyrirtækin í landinu.

Í frumvarpinu er lagt til að einkaaðilar á fjármálamarkaði sjái um að gæta þjóðarsjóðs og ávaxta hann og við vörum við slíkum hugmyndum. Verði frumvarpið samþykkt er afar mikilvægt að umsýsla með honum verði í Seðlabanka Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til norska olíusjóðsins og látið að því liggja að fyrirmynd útfærslunnar sé sótt til hans. Það er hins vegar af og frá. Það má t.d. benda á að síðasta haust var ákveðið að halda eignastýringu norska sjóðsins áfram innan sjálfstæðrar einingar í norska seðlabankanum. Það er líka mjög slæm hugmynd að útvista bæði rekstri og áhættustýringu á sjóðnum í ríkiseigu til einkaaðila. Meðal þeirrar fyrirsjáanlegu hættu sem það getur skapað er freistnivandi. Það eru alls konar ástæður og alls konar rök sem beinast að því að gera það ekki. Fjármálaeftirlitið gerði athugasemdir við þetta og mér skilst að í frumvarpinu sé að einhverju leyti tekið tillit til þeirrar gagnrýni. En það er álit okkar, fulltrúa Pírata og þeirrar sem hér stendur, að Seðlabanki Íslands henti vel til að hýsa þjóðarsjóð og sé fullfær um að sinna allri umsýslu og rekstri.

Í umfjöllun um auðlindamál er mikilvægt að gera greinarmun á fjármagnstekjum annars vegar og auðlindatekjum eða auðlindarentu hins vegar. Þær fyrrnefndu eru komnar til vegna þeirra fjárfestinga sem ráðist hefur verið í, svo sem vatnsaflsvirkjunar eða fiskiskips, en þær síðarnefndu eru komnar til vegna þeirrar auðlindar sem viðkomandi fjárfesting nýtir og leiðir til hærri arðsemi en við á um aðrar greinar með sambærilega rekstraráhættu. Í frumvarpinu, lagatexta sem og greinargerð, virðist þessu tvennu vera blandað saman. Arðgreiðslur frá orkufyrirtækjunum eru blanda fjármagnstekna og auðlindatekna. Það er ekki skynsamlegt að fjármagnstekjur ríkisins af þessari fjárfestingu fari í sjóð frekar en aðrar ríkistekjur. Miklu eðlilegra væri að ríkið legði auðlindarentuskatt á orkufyrirtæki og að tekjur af honum rynnu í slíkan sjóð. Fyrirmynd að slíkri skattlagningu er í norskri löggjöf. Skattlagningin gæti þá einnig náð til einkafyrirtækja og gæfi því meira af sér og það vekur sannarlega athygli að í frumvarpinu eru einkafyrirtækjum sem nýta orkuauðlindir hlíft, það er ekki gert ráð fyrir að arður af þeim eða auðlindarenta renni í þennan sjóð.

Forseti. Ég hef rennt yfir helstu gagnrýni okkar frá því í vor, mína og fulltrúa Pírata í nefndinni, og í engu var tekið tillit til þeirrar gagnrýni þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi í upphafi talað um sátt, sem gaf mér vonir um að við fengjum einhverju breytt og við næðum samtali um sjóðinn og að vinnan sem farið hafði fram í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefði skilað sér í breyttu frumvarpi fyrst hæstv. ráðherra vildi halda sig við þessa hugmynd. Það voru satt að segja mikil vonbrigði að ekkert var að marka allt tal um þverpólitíska sátt, það var allt í plati, þetta voru bara falleg orð í upphafi vinnunnar sem ekkert tillit var tekið til. Ég geri mér þó vonir um, nú þegar nefndin tekur til við starfið að nýju, að við náum dýpri umræðu og getum farið yfir það hvernig breyta má þessu máli þannig að meiri sátt náist um það en var í vor. Því miður gefa þær litlu breytingar sem gerðar hafa verið á málinu ekki tilefni til að ætla að meiri sátt verði um það í þessum búningi.