150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jafnvel þótt áður hafi birst nefndarálit frá hv. þingmanni vegna þessa máls verð ég að segja að það kemur dálítið á óvart hvernig Samfylkingin nálgast þetta mál, ekki síst í ljósi afar jákvæðra viðbragða hv. þm. Guðjóns Brjánssonar við framsögu í fyrra skipti þar sem málinu var hrósað mjög og því fagnað að nú stæði til að fara í sjóðsöfnun. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að það hafa í gegnum tíðina komið fram ýmsar hugmyndir um sjóði og að það mætti nýta aðrar tekjur, aðrar auðlindir jafnvel, eins og hv. þingmaður kom inn á. Eins er líka í sjálfu sér eðlilegt að menn hafi ólíkar skoðanir á því nákvæmlega hvernig eigi að fínstilla stjórnfyrirkomulagið og hvernig eigi að byggja upp fjárfestingarstefnu, hvar sjóðinn eigi að vista og þar fram eftir götunum. En fyrst Seðlabankinn er nefndur er það auðvitað algengt að seðlabankar eigi í samstarfi við einkaaðila sem eru sérhæfðir til að ávaxta hluta þeirra fjármuna sem seðlabankar vinna með. Í sjálfu sér er hér ekki verið að gera ráð fyrir öðru en að þingið og fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra komi saman stjórn sem geri tillögu að fjárfestingarstefnu sem þurfi síðan samþykki. Fyrir allt þetta þarf síðan að svara hér í þinginu þannig að það er útilokað að skilja hvers vegna menn leggja svona mikla áherslu á að þetta verði bara að vera í Seðlabankanum, eins og hann sé einn til þess bær. Það er eins og menn myndu vilja fela Seðlabankanum að taka alla lífeyrissjóði landsins líka því að honum sé einum treystandi. Auðvitað er það ekki þannig. Stjórnkerfið og þingið hljóta í sameiningu að geta sett saman stjórn sem getur komið með góðar tillögur, byggðar á lögum og reglum, (Forseti hringir.) um hvernig eigi að ávaxta eignir sjóðsins.