150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör og ég býst við að þetta verði rætt frekar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, mér finnst það eiginlega blasa við. Ég get tekið undir með hv. þingmanni í því sem hann flaggar hér. Mig langar í seinna andsvari að koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. verklagið þegar reynir á að nýta sjóðinn, að verklagið gæti þá verið tafsamt. Væntanlega er hv. þingmaður að vísa í það verklag að ráðherra komi með þingsályktunartillögu fyrir þingið til samþykkis, eins og segir í 6. gr. um ráðstöfunina. Ég býst við að í þessari grein sé tekið viðmið af öðrum slíkum sjóðum. Ég sé ekki fyrir mér að verklagið gæti verið öðruvísi en með aðkomu Alþingis eins og gert er ráð fyrir hér. Ég spyr hv. þingmann út í það hvernig við gætum mögulega hraðað því ferli.

Eins og fram kemur á bls. 18 í greinargerð er það samráð sem haft var á vegum Alþingis, þegar frumvarpið var lagt fram hér á síðasta löggjafarþingi, til bóta er varðar fjárfestingarstefnu og hér er nefnt að taka skuli mið af stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum og Santíagó-viðmiðin lögð til grundvallar o.fl. Það er góð vinna sem býr þar að baki.