150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:06]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég var engan veginn að ýja að því að ákvörðun Alþingis ætti ekki að koma til þegar kæmi að útdeilingu. Ég held að það sé einmitt afar mikilvægt. Ég sé það hins vegar fyrir mér að ferlið, það er þingsályktunartillagan, sé sex vikna umræða í matsnefndinni, sem getið er um í 7. gr. Ég sé það fyrir mér að það gæti tekið fáeina mánuði eða a.m.k. margar vikur að komast í gegnum það að ákveða útgreiðslu úr sjóðnum. Ég velti hreinlega því fyrir mér hvort einhvers konar umbúnaður þyrfti að vera um það í 6. eða 7. gr. með hvaða hætti ríkið gæti brugðist hraðar við þegar á þyrfti að halda.

Ég nefndi það í ræðu minni að auðvitað getur Alþingi, eins og nokkrum sinnum hefur gerst, tekið ákvarðanir með afar stuttum fyrirvara og leyst mál tiltölulega hratt. Við gætum verið með býsna stóran sjóð og sérstaklega framan af, þegar hann er kannski tiltölulega lítill, getur það skipt mjög miklu máli hvernig við búum að því að greiða úr honum. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort við getum ekki með einhverju móti fundið leið til þess í tengslum við frumvarpið og umfjöllun í nefndinni til að ljúka því.