150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:18]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og auðvitað er það rétt að við slík stór áföll, að því gefnu að staða ríkissjóðs sé þung að öðru leyti, gæti verið ágætt að hafa slíkan sjóð til að grípa til. En það er kannski hluti af gagnrýni minni í þessu að við höfum t.d., frá því að ríkissjóður lenti síðast í slíkri stöðu, tekið opinber fjármál og stýringu þeirra til gagngerrar endurskoðunar um það hvaða skuldaviðmiða skuli horft til, hvernig skuli tryggja að ríkissjóður lendi ekki aftur í þeirri stöðu sem hann lenti í 2009 og 2010, hann lendi ekki í jafn þungbærri stöðu og þá reyndist. Auðvitað eru fjölmargir aðrir þættir þegar glímt er við slík fordæmalaus efnahagsáföll sem við höfum verið að reyna að draga lærdóm af.

Það er ómögulegt að segja hvað eldgos af nánast einhverri fornsögulegri stærðargráðu gæti þýtt en við höfum ekki í seinni tíð lent í neinum slíkum áföllum sem hafa haft þannig afgerandi áhrif á efnahagslíf okkar. En það mætti þá spyrja hæstv. ráðherra á móti: Ef þessum sjóði er fyrst og fremst ætlað að vera til taks við slík stór áföll, eru þá ekki greiðsluskilyrði sjóðsins of rúm samkvæmt frumvarpinu eins og það liggur fyrir? Það væri í raun og veru hægt að grípa til hans í mjög dæmigerðri íslenskri hagsveiflu í eitt til tvö ár af hverjum sex til sjö sem við erum að fara í gegnum slíkar sveiflur. Það yrði væntanlega tiltölulega óstöðug uppbygging sjóðsins miðað við að það væru kannski 10–15 milljarðar að renna inn í hann á hverju ári og heimildir til þess, í núverandi stærðargráðu, að grípa til útborgana upp á tugi milljarða í hvert sinn.