150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[18:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég verð að vera henni ósammála. Þegar við setjum lög þurfum við að vera nákvæm. Ef maður ber saman þetta frumvarp og lögin eins og þau eru í dag er búið að bæta þessu orði við. Þetta þýðir annars vegar allt að einu ári og hins vegar allt að einu ári samtals og það getur breytt töluverðu. Allur sá tími, ýmist fjögur ár eða lengri tími, sem sá sem starfar sem sérfræðingur þarf t.d. að dvelja erlendis vegna starfa sinna getur komið í veg fyrir að viðkomandi geti nokkurn tímann fengið hér ríkisborgararétt. Við erum í þannig alþjóðaumhverfi á ýmsum sviðum, vísindum, menningu, í nýsköpun, jafnvel lögfræðinni, að sérfræðingar flakka á milli landa.

Sú nýja málsgrein sem á að bætast við 9. gr., um að ráðherra eigi að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd 1. og 5. töluliðar 1. mgr., ýtir aðeins við mér, þ.e. annars vegar að umsækjandi skuli sanna með „fullnægjandi hætti hver hann sé“ og varðandi framfærsluna. Ég verð að segja að ég hef ekkert sérstaklega góða tilfinningu fyrir því þegar of mikið vald er falið ráðherra til að setja reglugerðir af því að við höfum ekkert sérstaklega góða reynslu af reglugerðarsetningu úr dómsmálaráðuneytinu að undanförnu. Þá er ég að vísa í það sem gerðist áður en hæstv. ráðherra tók við embætti.