150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[19:04]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langaði að koma hingað upp til að skýra aðeins nánar það sem hv. þingmaður fór í, sérstaklega í andsvari hér áðan, þar sem mér fannst það ekki alveg nógu skýrt. Í fyrsta lagi er nýmæli í b-lið 1. gr. um að heimilt sé að víkja frá þessum skilyrðum hafi dvöl umsækjanda hér á landi verið rofin allt að einu ári samtals á þeim tíma sem hann verður að uppfylla. Þetta er nýmæli og það sem er breytt síðan er að það er þó allt að tveimur árum sem eru vegna tímabundinnar atvinnu erlendis sem nú er eitt ár. Nú þarf í raun ekki nein sérstök skilyrði, óviðráðanlegar aðstæður eða annað, til að fara í allt að samtals eitt ár. Það þarf ekki að útskýra það frekar og þá myndast ekki rof í ferli við að sækja um ríkisborgararétt. Þetta er auðvitað til þess að taka á þeim breyttu atvinnuháttum sem við sjáum og mæta því svo að fólk geti ekki bara verið í eitt ár heldur tvö ár í burtu — það er lengt um heilt ár — í tímabundinni atvinnu eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Einnig er gefið ár án þess að skýra þurfi það nánar. Það þarf ekki að tilgreina sérstaka ástæðu fyrir því eins er í dag, til að missa ekki úr eða fá rof í ríkisborgararéttinn.

Þá langar mig kannski rétt svo að nefna, af því að hv. þingmaður fer í ákvæði um að umsækjandi sé talinn ógna mikilvægum þjóðarhagsmunum og spyr af hverju það ákvæði sé í lögunum og hver meti það. Það er fyrst og fremst sett inn í lögin af því að það er búið að setja það í útlendingalögin og þetta er frumvarp sem er gert svolítið til samræmingar útlendingalögunum þar sem við erum að reyna að skýra þessi lög en ekki síst vegna þess að svona ákvæði er líka að finna í lögum í kringum okkur, á Norðurlöndunum. Svo eru það auðvitað álitamál sem vakna. Ef svona álitamál vakna einhvern tímann, um hvort umsækjandi teljist ógna þjóðarhagsmunum, er rétt að Útlendingastofnun eða eftir atvikum ráðuneyti sem kærustjórnvöld setji málið í þann farveg að afla sér álits utanríkisráðuneytisins.