150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum, um lausasölulyf. Ég verð að lýsa því yfir að ég er algjörlega á móti frumvarpinu. Mér finnst það út í hött. Ég held að frekar ætti að draga úr og gera enn erfiðara að ná í þau verkjalyf sem eru talin upp í frumvarpinu, eins og panódíl og íbúfen. Ég tala af eigin reynslu, ég gæti ekki einu seinni tekið þessi lyf inn vegna þess að það er búið að ganga þannig frá maganum í mér með gígantískri lyfjatöku á biðlistum að það er útilokað. Fyrir marga virka lyfin ekki, heldur valda hreinlega skaða. Það væri nær að við værum að leita lausna. Er hv. þingmaður ekki sammála mér að leita lausna og skoða náttúrulyf?

Við höfum líka heyrt að margir biðja um að fá hampolíu sem er að mörgu leyti verkjastillandi og bólgueyðandi. Náttúrulyf eru að ryðja sér til rúms og við ættum að einbeita okkur að því að finna þau og ýta undir notkun þeirra frekar en að auðvelda aðgengi að þeim lyfjum sem ég vísaði til sem valda hreinlega skaða. Ég held að það sé engin þörf á því, það geta allir komist í slík lyf. Erum við ekki sammála um að allir komist yfir þau lyf sem vilja? Ég held að við ættum frekar að minnka skammta en auka og frekar að gera aðgengi erfiðara en auðveldara.