150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[17:49]
Horfa

Flm. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að við getum verið sammála um efnisinntak frumvarpsins vegna þess að það er ekki tilgreint í frumvarpstextanum sjálfum hvaða lyf er um að ræða heldur er það Lyfjastofnunar að meta. Ég geri ráð fyrir að hún myndi meta það út frá alls konar hagsmunum og því hvað er hættulegt og hvað ekki. En a.m.k. er hægt að nálgast veikari verkjalyf í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og matsaðilar þar hafa metið það óhætt. Það að geta náð sér í veik ofnæmislyf getur þýtt að fólk geti komist til Reykjavíkur til að nálgast allt sem er í boði þar sem það myndi einfalda lífið fyrir mjög marga.