150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

lyfjalög.

266. mál
[18:04]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum, um lausasölulyf. Ég verð eins og áður að lýsa mig andvígan þessu frumvarpi, sérstaklega er varðar verkjalyf og bólgueyðandi lyf. Ég tel af reynslu að við eigum að hefta frekari aðgang að þessum lyfjum. Þó að önnur Norðurlönd hafi tekið þennan ósið upp þurfum við ekki að gera aðgengið auðveldara. Ég get kannski skilið að úti á landi þurfi þetta til. Ég er búinn að læra það af reynslunni, eftir að hafa lent í því að þurfa að taka gífurlegt magn af lyfjum og lyf við aukaverkunum lyfja, að þegar búið er að búa til slíkan vítahring hjá fólki er ástandið orðið grafalvarlegt. Hvað á maður að gera og hugsa þegar maður er kominn í þá aðstöðu? Í upphafi þurfti ég ekki að taka lyf. Síðan tekur maður geigvænlegt magn af lyfjum og eftir það er maður kominn í þá stöðu að geta ekki tekið lyf vegna þess að maður er búinn að taka svo mikið af lyfjum að ekki er hægt að taka lyf lengur. Þá verður maður að finna lausnir og ég fann einfalda lausn sem er á við bestu verkjalyf. Það er mjög góð lausn og ætti að vera búið að koma upp slíkri aðstöðu út um allt land, hún er á við margar sterkar verkjatöflur. Það er að fara í kælingu og hitun, fara fyrst í kalt vatn og svo í heitt vatn. Þetta er ótrúlega áhrifaríkt og hefur reynst mér vel, þ.e. ég fer í 4–5°C kalt vatn og er þar í tvær mínútur og fer svo beint í sjóðandi heitt vatn. Sumir myndu kalla þetta pyndingar, það er misjafnt hvernig fólk þolir að fara í kalt vatn. En fólk venst þessu og ég hef hitt fólk sem hefur læknast af mígreni og alls konar verkjum bara með þessu. Svona einfaldur hlutur getur hjálpað. Í staðinn fyrir að þurfa að taka verkjalyf getur maður líka haft kælibakstur inni í ísskáp og kælt verkjasvæðið.

Það eru sem sagt til náttúrlegar lausnir og það er hægt að efla þær og koma þeim frekar á framfæri. Eins og ég sagði í andsvari mínu áðan myndi ég vilja að við rannsökuðum vel hampolíuna. Þá er búið að taka eiturefnin úr olíunni þannig að hún virkar, ég hef hitt fólk sem notar hana sem segir að hún virki rosalega vel gegn bólgum og verkjum og alls konar kvillum sem hafa verið að hrjá fólk. Þegar maður les fylgiseðlana með bólgueyðandi lyfjum og verkjalyfjum, þetta eru verksmiðjuframleidd lyf, verður maður veikur við lesturinn. Maður sér hvað aukaverkanirnar geta verið ótrúlega margar. Síðan eigum við að reyna að efla sjúkraþjálfun. Sjúkraþjálfun getur verið mjög góð við verkjum og við þurfum að efla hana mun meira. Það er betra fyrir viðkomandi sjúkling, þann sem finnur fyrir miklum verkjum, að fara í sjúkraþjálfun frekar en að dæla í sig verkjatöflum.

Bent er á að málið fari til Lyfjastofnunar og hún eigi að finna út úr því hvaða lyf megi selja í lausasölu. Ég ætla að vona að Lyfjastofnun íhugi málið mjög vel en horfi ekki bara blint til Norðurlandanna og leyfi þessi bólgueyðandi lyf og hin verkjalyfin í lausasölu. Ég held að það væri ekki neinum til góðs og ég vona heitt og innilega að við getum sammælst um það. Ég er sammála því að ofnæmislyf megi selja í lausasölu. Ég nota þau líka og þau hafa ekki skaðað mig hingað til. Ég veit ekki um neinn sem þau hafa skaðað heldur hafa þau frekar bætt líðan. Ég get líka skilið að það gæti orðið erfitt úti á landi að komast í lyf en ég held við ættum að leysa það á annan hátt en að auka aðgengið.