150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum.

127. mál
[18:32]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Herra forseti. Ég fylgi hér úr hlaði tillögu til þingsályktunar um stefnumótun og framtíðarskipulag náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum. Flutningsmenn eru hv. þingmenn Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Magnússon, Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Oddný G. Harðardóttir, Karl Gauti Hjaltason, Vilhjálmur Árnason og Smári McCarthy.

Hér segir að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp um stefnumótun náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum. Hópnum verði falið að kanna hvernig best megi fjölga námsplássum á svæðinu með hliðsjón af fólksfjölgun og fjölbreyttum menningarlegum bakgrunni íbúa og auka framboð námsleiða, m.a. á sviði tækni og nýsköpunar, sem og að tryggja rekstur náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum til framtíðar. Hópurinn leggi einnig fram tillögu að framtíðaruppbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og skoði í samvinnu við sveitarfélögin á Suðurnesjum hvort breyta þurfa staðsetningu hans með tilliti til stækkunarmöguleika og aðgengis. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

Fjölgun landsmanna undanfarin ár hefur verið hlutfallslega mest á Suðurnesjum og langt umfram meðalfólksfjölgun í landinu. Það þarf að taka tillit til þess við skipulagningu náms á framhaldsskólastigi að á svæðinu er hátt hlutfall vaktavinnufólks og þar kemur m.a. Keflavíkurflugvöllur inn í. Þarna er tækifæri til þess að skoða það að breyta skólakerfinu að einhverju leyti og taka tillit til þess að grunnskóli geti þess vegna staðið fram undir átta að kvöldlagi en byrji seinna o.s.frv. Þarna liggur fullt af tækifærum.

Hér segir líka að menntunarstig fólks á svæðinu hafi hækkað, sérstaklega kvenna, og það er afar ánægjulegt. Markmið tillögunnar er að styrkja stoðir náms á framhaldsskólastigi á Suðurnesjum með tilliti til þarfa atvinnulífs á svæðinu, mikillar mannfjölgunar og fjölbreytts menningarlegs bakgrunns íbúa. Móta þarf stefnu um uppbyggingu Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tryggja fjármögnun menntastofnana á svæðinu til framtíðar. Niðurstöður eiga eins og áður segir að liggja fyrir í júní 2020. Það er unnið mjög öflugt menntastarf á Suðurnesjum. Þar eru leik- og grunnskólar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, þar sem spila náttúrlega saman hið opinbera og einkaaðilar. Sérstaklega þarf að huga að samsetningu íbúanna í þessu samfélagi. Það sem ég held að þurfi að huga sérstaklega að framvegis, og er aðeins komið inn á í greinargerð, er að námsefni taki tillit til þess að þarna eru mjög margir íbúar sem eru með íslensku sem annað tungumál og þarf þess vegna að huga að stuðningi einstaklinga í námi sem eru með íslensku sem annað tungumál.

Það er lagt til að málið fari til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd og ég skil þetta eftir í höndum forseta.