150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

vegur um Dynjandisheiði.

[10:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég kom ekki að öllum upplýsingum í fyrra svari mínu við fyrirspurninni um fyrirhugaðar friðlýsingar og stækkun á því svæði er tengist fossinum Dynjanda og því fallega svæði. Það er mjög mikilvægt þegar við erum enn að byggja upp grunnkerfi landsins að við höfum í huga að það land sem við þurfum að taka til slíkra framkvæmda sé ekki búið að loka inni með einhverjum friðlýsingum eða öðru án þess að kostirnir hafi verið vegnir og metnir. Ég vil treysta því að það sé engin hætta á því sviði vegna þess að vegurinn er nánast tilbúinn í útboð. Umhverfismatið á Bíldudalsveginum er það sem við erum að bíða eftir. Hitt er komið eftir því sem ég best veit og við getum þá farið af stað um leið og samþykki Alþingis liggur fyrir. En það er almennt þannig að við þurfum að huga að því að við viljum búa í þessu landi (Forseti hringir.) og fólk víða um land, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, vill líka búa á sínu landi og nýta þær auðlindir sem þar eru og þess vegna verðum við á hverjum tíma að vega og meta kosti nýtingar og friðunar og jafnvægið þar á milli.